18.03.1947
Neðri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram brtt. á þskj. nr. 527. Hún er við 8. gr. um, að í stað „6%“ í 5. tölulið komi: 5%, og við 10. gr. um, að fyrir „6%“ í niðurlagi síðari málsgr. 3. tölul. komi: 5%. Þessi breyt. er ekkert annað en leiðrétting til samræmis við brtt. frá meiri hl. sjútvn., sem samþ. var við 2. umr. þessa máls, og vænti ég þess vegna, að hún fáist mjög greiðlega samþ.

Í öðru lagi hefur meiri hl. sjútvn. lagt fram brtt. um það, að skattfrelsi þessa félags sé ákveðið til þriggja ára, í stað þess að vera ótímabundið, eins og það er nú í frv. Ég get ekki séð, að þetta sé mjög mikil breyt. Þetta er ekkert annað en ákvæði um það, að þetta skuli tekið til endurskoðunar, þegar félagið hefur starfað í þrjú ár. En í frv. er skattfrelsisákvæðið hins vegar ótímabundið, og er vitanlega hægt að breyta því, hvenær sem Alþ. vill. Það er þess vegna alls ekki svo mikill munur á þessum tveimur till., eins og þær liggja fyrir, sem maður skyldi ætla, þó að n. hafi að vísu klofnað um þetta, því að vitanlega er Alþ. alls ekki skuldbundið fremur en það sjálft vill til að láta þetta félag hafa ævarandi skattfrelsi; þótt ákveðið tímatakmark sé ekki sett í l. í því sambandi, enda þótt það nú um óákveðinn tíma væri undanþegið skatti.

Viðvíkjandi brtt., sem hv. þm. Siglf. hefur lagt fram, um, að í staðinn fyrir 5% arðsútborgun, sem leyfileg er eftir frv., komi 2½%, er það að segja, að sú brtt. hefur ekki legið fyrir n. Og ég veit ekkert um það, hvernig sjútvn. hefði tekið henni, hefði hún komið þar fram. Hv. þm. áskildi sér rétt til þess að bera fram brtt. við þessa gr., sem hann nú hefur gert. En hins vegar er nokkuð langt á milli till. hans og brtt. þeirrar, sem samþ. var hér í hv. þd. um þetta atriði, og ég skal ekkert segja um það, hvort fengizt hefði samkomulag um að lækka þetta greiðsluhámark eitthvað, ef þessu hefði verið hreyft í n. En það hefur sem sagt ekki verið gert. Ég stakk upp á, að mig minnir, 4% sem hámarki í þessu efni, en aðrir nm. vildu hafa þetta hámark eins og það var, og samkomulag varð um 5%. En ef sú brtt. sjútvn. um að binda skattfrelsi félagsins við þrjú ár væri samþ., held ég, að ekki sé ráðlegt að samþ. brtt. hv. þm. Siglf. En þá mætti ef til vill finna einhverja millileið, sem samkomulag hefði getað orðið um, a. m. k. hefði ég vonað það, ef þessi brtt. hefði nokkurn tíma legið fyrir sjútvn.