18.03.1947
Neðri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) :

Mér þykir ekki ástæða til að hefja umr. um það, sem á milli hefur borið í sjútvn. um þetta mál, sem sé hvort þetta félag eigi að vera skattfrjálst til ríkis og bæjar áfram eins og fyrirrennari þess, stríðsslysatryggingin, hefur verið, frá því að l. um það voru sett, eða að hér eigi að setja þær hömlur á, að þetta skattfrelsi eigi eingöngu að taka til þriggja ára, eins og gert er ráð fyrir í þeim brtt., sem hér liggja fyrir. Við 2. umr. málsins var borin fram brtt. af sömu aðilum um, að þetta skattfrelsi skyldi aðeins taka til tveggja ára. Hún var felld við 2. umr. málsins. Nú hafa þeir bætt við einu ári, þannig að um þrjú ár er að ræða. Ég sé ekki, að það sé neinn munur á um það. Það, sem aðallega er deilt um hér, er, hvort félagið eigi að njóta þessara fríðinda eða ekki. Og við í minni hl. sjútvn. leggjum áherzlu á, að það njóti þeirra, af þeim ástæðum, sem mér þykir ekki ástæða til að fara að endurtaka. Og á grundvelli þess nær þetta félag miklu fljótar og betur þeim tilgangi, sem það vinnur að, sem sé að geta orkað nokkru á um það að lækka iðgjöldin, og svo að hinu leytinu, að fyrr en annars sækist nokkuð á þeirri leið að geta gert þessar tryggingar innlendar að því marki, sem nú þykir hentugt í því máli, eins og stefna okkar hefur verið og er í tryggingarmálum á öðrum sviðum og mikið hefur áunnizt í, eins og öllum er kunnugt.

Það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að brtt. hans eru bornar fram sem leiðréttingar í samræmi við þá brtt. um þetta efni, sem samþ. var hér við 2. umr. Um brtt. hv. þm. Siglf. er öðru máli að gegna. Það varð að samkomulagi í n., eins og hv. þm. Ísaf. hefur lýst, að n. — að undanteknum hv. þm. Siglf. einum — ákvað að færa þetta niður úr 6% í 5% og láta ákvæðin að öðru leyti halda sér óbreytt. Mér finnst ekki sanngirni af hv. þm. Siglf. að færa þetta niður í 2½%, sem eru vextir neðan við það, sem menn geta nú fengið fyrir skuldabréf, sem þeir kaupa, en við það er eðlilegt að miða. Þá finnst mér ekki heldur sanngjarnt af hv. þm. Siglf. að vilja fella niður 3. tölul. 10. gr. Það virðist í alla staði eðlilegt og hóflegt að miða við þau 5%, sem nú hafa verið ákveðin, því að það er vitað, að þessari starfsemi, sem þarna er stofnað til, er þannig háttað, að það getur verið gróði annað árið og tap hitt árið, og er það háð óvissu, sem enginn kann að renna grun í fyrir fram, og því virðist, þar sem vaxtagreiðslunum er svona í hóf stillt, eðlilegt, að þetta sé leyft, enda hreyfði enginn andmælum gegn því í n. annar en hv. þm. Siglf. Ég vil þess vegna mjög eindregið leggja til, að þetta mál verði afgr. óbreytt frá því, sem það var samþ. hér við 2. umr., nema að því er tekur til þeirra lagfæringa, sem hv. þm. Ísaf. leggur til í sínum brtt.