10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki hér viðstaddur. Ég vil þess vegna aðeins segja nokkur orð um þetta frv., sérstaklega vegna orða þess hv. þm., sem nú talaði síðast. Hann lét þau orð falla, að það liggi ekki fyrir enn neitt endanlegt um það, hvaða tekjuaukafrv. verði lögð fram af hálfu ríkisstj. Þau frv. hafa nokkuð verið rædd, eða réttara sagt till. um þau, sem fram hafa komið. Á þessu stigi get ég ekki um það sagt, hvað úr verður endanlega í þeim efnum. En út af fyrir sig sé ég ekki. að neitt væri því til fyrirstöðu, að ganga mætti frá þessu máli, sem hér liggur fyrir, þó að þessi tekjuaukafrv. hafi ekki komið fram. Þau l., sem þetta tekjuaukafrv. er um að framlengja, hafa nú verið framlengd á mörgum undanförnum þingum, og aldrei hefur verið talið fært að láta það niður falla. Og það er óhætt að segja það, enda á vitorði allra hv. þm., að það er þörf á, ekki aðeins þeim tekjum fyrir ríkissjóð, sem hafa verið, heldur einnig miklu meiri, vegna vaxandi útgjalda hjá ríkissjóði, svo að hvað, sem gert verður annað í því máli, þá tel ég, að ekki verði hjá því komizt að samþ. einnig þetta frv., eins og svo oft áður. Ég vil því eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti mál þetta nú ganga sinn gang á þessum fundi, því að ég sé ekki ástæðu til þess að láta þetta frv. bíða, þótt önnur frv. til viðbótartekjuöflunar séu ekki fram komin.