28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm., að í umr. er áður fram komið það, sem fram er að færa um þetta mál. En vegna þess, að hv. þm. Borgf. kom að tveim atriðum, sem hann hafði áður fært fram og ég hélt, að hefði verið svarað þá, þykir mér rétt að endurtaka andmælin. Fyrra atriðið var, að eðlilegt sé, að félagið hafi skattfrelsi eins og fyrirrennari þess, stríðsslysatryggingafélagið, en það er ekki fyrirrennari þessa félags. Félagið, sem leggja á niður, var ekki rekið sem gróðafyrirtæki, heldur var tilgangurinn framlög til slysabóta. Hér er hins vegar um gróðafyrirtæki að ræða eins og önnur tryggingarfélög og er líka þannig byggt upp, og mér er ókunnugt um, að nokkuð mæli með því, að slík stofnun ætti að hafa skattfrelsi. Í frv. eru felldar rammar skorður, að mönnum geti ekki brugðizt gróðinn, og á að leggja fé í arðjöfnunarsjóð og greiða arð, og hefur í því sambandi verið vitnað í Eimskipafélag Íslands, en það hefur aldrei haft arðjöfnunarsjóð, og er það ekki sambærilegt. En ég vildi minna á að Eimskipafélag Íslands hefur greitt hátt á aðra milljón hér í Reykjavík til almenningsþarfa, en því hefur verið veitt skattfrelsi til ríkissjóðs fyrir hlunnindi, sem það hefur látið þjóðinni í té, svo sem strandsiglingarnar, sem reknar hafa verið með tapi. Hér getur því ekki verið um samanburð að ræða. Um hitt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að félagið ætlaði að lækka iðgjöld, þá hefur ríkið samábyrgðina og hefur sett lög þar um, þar sem þess er stranglega gætt, að tryggingarnar geti ekki orðið dýrari en raunverulegt er. Það er heldur ekki rétt að halda, að þótt stofnunin tæki 10% af áhættufénu, að hún gæti boðið tryggingar niður, og er hún þess ekki megnug, því að Lundúnamarkaðurinn hefur ráðið og samkeppni þarf til þess að iðgjöld lækki. Við erum sjálfir ómegnugir að hafa tryggingarnar á hendi að öllu leyti, þótt heilbrigt sé, að við gætum haft sem mest af þeim. En menn spyrja aðeins: Er ég tryggður? En ekki: Hvar er ég tryggður? Þess vegna má enginn taka á sig tryggingar umfram það, sem getan leyfir. Frá minni hálfu þá er ég mótfallinn skattfrelsi félagsins, en þeir, sem eru sjálfir eða sem umboðsmenn að mæla fyrir þessu, ætlast hreint ekki til lítils. En ef svo virtist, sem skattfrelsið hefði rétt á sér, þá væri hægt að framlengja það. Ég vil benda á, að ríkið hefur látið sínar stofnanir greiða til opinberra þarfa svo sem einkasölurnar og S. R., og ríkið hefur það fyrir reglu, að stofnanir, sem reistar eru til hagsmuna fyrir ríkið, borga opinber gjöld, því hvernig færi, ef ríkið útrýmdi einstaklingsrekstrinum og skoraðist svo undan að borga til opinberra þarfa. Ég vildi svo mælast til, að hv. þm. greiði atkv. með þessari till.