28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal rekja þessi atriði, sem hv. þm. Borgf. fór hér út í. Hann sagði, að það væri ekki rétt hjá mér, að stríðsslysatryggingarfélagið væri ekki fyrirrennari þessa félags, sem hér er um að ræða, af því að sömu aðilar stæðu að þessu félagi eins og stríðsslysatryggingafélaginu. Þetta sannar lítið, þótt sagt sé, að sömu menn standi og hafi staðið að báðum þessum félögum, því að sömu aðilar geta starfrækt algerlega óskylda hluti. Og það er barnalegt að halda slíku fram. Það væri líkt og t. d. að segja, ef ég væri útgerðarmaður, að skyldleiki væri á milli þess og annarrar atvinnu, sem ég ræki, ef ég ræki t. d. búskap einhvers staðar.

Ég vil benda hv. þm. og sérstaklega hv. þm. Borgf. á það, að starf stríðsslysatryggingafélagsins var eingöngu að tryggja skipshafnir gegn slysum og dauða. Er nokkuð í þá átt í þessu, sem hér liggur fyrir? Þetta nýja félag á að vera fyrst og fremst til þess, að þeir menn, sem leggja þarna inn fé, hafi af því vissar tekjur. Hér er því alls ekki líku saman að jafna. Hv. þm. Borgf. segir líka, að þetta félag njóti skattfrelsis. Það hefur tekið sér þetta skattfrelsi sjálft. Þetta félag er ekki stofnað enn raunverulega. En það hefur starfað að umsvifamiklum tryggingum og tekið sér skattfrelsi. Og það er ekki það sama og að gefa neinum manni rétt, þó að sá maður taki sér einhvern rétt, og slíkt á ekki að eiga sér stað, að aðilar taki sér sjálfir slíkan rétt: Hv. þm. Borgf. sagði, að sér væri kunnugt um, að félagið hefði lækkað iðgjöldin. En það af tryggingum, sem snertir nýja togaraflotann, var alls ekki boðið út, heldur var pukrað með þetta við þetta félag. Félagið samdi um þetta við erlenda endurtryggingu, og félagið tók 10% hagnað. Þetta var aðeins samningsatriði við endurtryggjandann, og enginn er kominn til að segja, nema þetta hefði getað verið lægra, ef þetta hefði verið boðið út og keppt um á erlendum markaði að komast að sem beztum kjörum. Og ég er ekki viss um, nema þetta hafi valdið því, að togarar hafi fengið tryggingu með hærri iðgjöldum en verið hefði, ef þetta hefði verið frjálst.

Hv. þm. Borgf. var enn að tala um hagnaðinn af því að hafa trygginguna innlenda, sem kæmi fram í gjaldeyrissparnaði. En það getur ekki orðið gjaldeyrissparnaður, nema því aðeins, að tekinn sé nú óeðlilegur gróði á tryggingunum. Tryggingarfélag hér starfaði upp undir 40 ár án þess að greiða einn eyri til erlendra endurtrygginga. Hvaða gjaldeyri sparaði þetta? Þeir græddu gjaldeyri á því.

Hv. þm. Borgf. sagði, að skyldleiki þessara félaga væri í því fólginn, að félagið hefði grætt á slysatryggingunni. Stjórnendunum var falið að reikna út iðgjöldin í samræmi við áhættuna. En þegar félagið var búið að starfa í nokkur ár, er það búið að græða 5 millj. kr., og það hefði verið bezt að tala sem minnst um það. Þetta félag hefur tekið þarna meiri gróða en því raunverulega var heimilað. Og þegar hv. þm. Borgf. vill leggja tryggingamálin sem mest í hendur þessa félags til þess að spara gjaldeyri, þá væri kannske fróðlegt að sjá reikninga þessarar tryggingar og hvað mörgum milljónum hún hefur kastað út úr landinu í gjaldeyri, af því að hún reiknaði áhættuna meiri en nauðsynlegt var eða eðlilegt var. — Ég dreg þetta ekki frekar inn í umr.