28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Ég skal aðeins segja það út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala hér um, að ég hefði borið fram sem aðalatriði í málinu, að það hefðu staðið sömu aðilar að hinu fyrra félagi eins og þessu, sem hér ræðir um, að þetta félag er búið að starfa að sínum tryggingum í eitt ár, svo að það er áframhaldandi starf, sem hér er um að ræða. Gróði þessa félags er um 4 millj. 964 þús. kr., og það stóð opið fyrir að skipta þessu fé á milli eigendanna. En þeir aðilar, sem nú leggja þetta fé inn í þetta nýja félag, mega aldrei fá meira en 5% af þessu fé í vexti. Þetta er bara sá reginmunur í þessu máli, og hér snýr hv. 5. þm. Reykv. alveg hlutunum við. Og ég álít það mjög skynsamlega ráðstöfun af viðkomandi aðilum að hafa ekki skipt upp þessu fé, heldur leggja það sem grundvöll að þessari mikils verðu sjóðstofnun.

Í London voru boðnar út þessar endurtryggingar á togurunum, og af tilboðum í því efni, sem hv. 5. þm. Reykv. vitnar alltaf til, sem þóttu nokkuð há, fékk félagið, sem að botnvörputryggingunum stendur, að taka að sér 10% af áhættunni, og við það lækkuðu iðgjöldin um 3/4%. Þessu þýðir ekkert fyrir hv. 5. þm. Reykv. að neita.

Að það sé ekki með því að reyna að koma þessu á innlendar hendur stefnt að gjaldeyrissparnaði, það þykir mér einkennileg kenning. Heldur hv. 5. þm. Reykv., að þessi endurtryggingafélög í London reki tryggingastarfsemi sem góðgerðastarfsemi handa okkur? Nei, þau gera það fyrst og fremst til þess að láta starfsemina bera sig og auk þess til þess að hagnast á henni, og ef það sýnir sig, að það verði tap á þeim rekstri hjá þessum erlendu félögum, eru iðgjöldin hækkuð. En með stofnun þessa félags, sem hér er um að ræða, gerbreytist okkar aðstaða í þessum efnum, og því sterkari verður þessi aðstaða sem bolmagn þessa félags verður meira. En með skattfrelsi er vitanlega mjög stutt að því, að þetta félag geti orðið öflugur keppinautur erlendu vátryggingafélaganna og geti komið tryggingunum á íslenzkar hendur.