28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta það, sem hv. þm. Borgf. sagði hér um það, að ég hefði farið rangt með það, að þessar tryggingar hefðu ekki verið boðnar út. Ég sagði innanlands. En þegar brunatryggingarnar voru settar á hér í Reykjavík, þá var innlendum félögum gefinn kostur á að keppa, og það varð til þess að lækka brunatryggingarnar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þau glímdu um það lengi, hvort þau ættu að fá hér umboð, og það varð til þess, að endurtryggjandinn í London lækkaði sig. En það var það, sem ég benti á, að þetta væri útilokað hér. Ég vísa til minna fyrri ummæla um það, hvort íslenzk endurtrygging geti orðið öflugur keppinautur erlendra endurtryggingafélaga. Það er náttúrlega alveg óhugsandi, að slíkt geti orðið, því að ég veit ekki betur en að í milljónalöndum, þar sem auðmagn er svo mikið, að þar er einn einstaklingur kannske auðugri en allt íslenzka ríkið, þar þykir sjálfsagt að dreifa tryggingunum til annarra landa sem allra mest.