02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

200. mál, loftferðir

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Í 5. gr. siglingalaganna frá 1914 munu vera ákvæði um stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettum skipum eða skipshlutum, og skuli þar farið eftir reglum um fasteignir. Þó skulu bátar, sem minni eru en 5 smálestir, skoðaðir sem lausafé gagnvart ákvæðum um þinglýsingu og aflýsingu skjala.

Í l. um loftferðir eru engin ákvæði um það, hvernig líta skuli á loftför í þessu tilliti. Nú er það svo, að margar reglur gilda um eingaafsöl og veðréttindi eftir því, hvort um lausa fjármuni eða fasteignir er að ræða, og mundi það gera loftfarseigendum hægara um lántökur, ef ákvæðum, hliðstæðum og í 5. gr. siglingalaganna, yrði bætt inn í l. um loftferðir. Í frv., sem fyrir liggur, er lagt til, að svo verði gert. Það verður að teljast eðlilegt, vegna þess að starfsemi flugvéla, að því er samgöngur snertir, er svipuð starfsemi skipa. Hér er lagt til, að aftan við 17. gr. l. nr. 32 14. júní 1929, um loftferðir, komi ný grein svohljóðandi, með leyfi hv. forseta: „Um stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu loftfari skal farið eftir reglunum um fasteignir, að svo miklu leyti, sem þeim verður við komið: Þetta er sú viðbót, sem á að koma inn í l. um loftferðir eftir frv. Það má heita, að þetta sé eins og í 5. gr. siglingalaganna um skrásett skip. Einn nm. var ekki á fundi, er frv. var afgr. frá n., en hann hefur nú skrifað undir nál. og á þann hátt tjáð sig samþykkan þessari viðbót, og má því segja, að n. öll leggi til, að frv. verði samþ. óbreytt.