27.03.1947
Neðri deild: 103. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

179. mál, sýsluvegasjóðir

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér ásamt hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Gengur hún í þá átt móts við það, sem gilt hefur undanfarið um framlag ríkissjóðs til sýsluvegasjóða, að þegar framlag sýsluvegasjóða væri komið upp í 10–12‰ af lands- og lóðarverði, þá legði ríkissjóður nokkru hærra á móti en verið hefur. — Þarna koma tvær ástæður til greina. Í fyrsta lagi er það, að ef framlagið nemur 2‰ af matsverði lands og lóða, hefur ríkissjóður aldrei lagt neitt á móti. Það er því nokkuð mótvægi, ef ríkissjóður legði hærra á móti, þegar gjöld sýsluvegasjóða fara að verða svo sem hér er gert ráð fyrir. Í annan stað má benda á það, að nú er svo komið í ýmsum héruðum vegna bættra búnaðarhátta, að kröfur um aukna vegi eru svo gífurlegar, að sýsluvegasjóðirnir hafa orðið að taka stórlán til þess að fullnægja þessum kröfum, og þar sem það er vitað, að tekjur sýslusjóðanna eru mjög takmarkaðar, þá er þetta að verða svo alvarlegt atriði, að ekki verður hjá því komizt, að ríkissjóður verði að taka meiri þátt í þessu en verið hefur hingað til.

Við flm. leggjum því til, að þeirri reglu verði fylgt, að því meir sem sýslufélögin leggja á sig, því ríflegar komi ríkissjóður á móti þeim. Hygg ég, að hér sé vel stillt í hóf, og erum við flm. þess fullvissir, að því fé, sem ríkissjóður legði þannig fram, yrði vel varið.

Ég sé, að hér er komin fram brtt. við þetta, og skal ég ekki ræða um hana, fyrr en hv. samgmn. hefur gert grein fyrir henni. — Ég vil að lokum taka það fram, að þessi breyt., sem hér er farið fram á, er gerð af mikilli nauðsyn sýslufélaganna, og ef þessi brtt. verður felld, þá hlýtur af því að leiða enn frekari kröfur um, að fleiri vegir verði teknir í þjóðvegatölu, sem ekki yrði á neinn hátt hagstæðara fyrir ríkissjóð en að sýsluvegasjóðirnir standi undir þessum framkvæmdum að nokkru leyti. Ég held þess vegna, hvernig sem á þetta er litið, að það sé heppilegast bæði fyrir ríkissjóð og fyrir sýslufélögin að koma þessum málum fyrir eins og hér er gert ráð fyrir.