10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða svo mjög einstök atriði þessa frv., en rétt er að fara örfáum orðum um þessi mál, enda gildir það sama um þetta frv. og önnur frv., sem hér verða sennilega afgreidd bráðlega. Ég var einn af þeim, sem hafði takmarkaða trú á að mynda núverandi ríkisstj. án þess að breytt væri meira um fjármálastefnu. Aðrir, sem fúsir voru til samstarfsins, hafa gert það í þeirri trú, að þrátt fyrir það að ekki væri meiri breyting gerð, þá mundi samstarfið leiða til þess, að ríkisstj. mundi sjá ástæðu til að breyta um fjármálastefnu, og ég verð að óska þess, þrátt fyrir það að þessi frv. spái ekki góðu um það, að þessum mönnum, er höfðu þessa trú, verði að ósk sinni, en hins vegar vildi ég fá meiri tryggingu fyrirfram. Hitt er vitað, að ég trúi ekki, að hægt sé að halda fjármálakerfinu í horfinu með þeim leiðum, sem farnar hafa verið undanfarið, og auðséð er, að þó að dýrtíðin sé stöðvuð í bili, er engin lækning fólgin í því. En sú breyting hefur þó orðið, að núverandi ríkisstj. er eins og sjúklingur á biðstofu, og er það vitanlega spor í rétta átt, en þó vita allir, að það er ekki nóg. Viðkomandi þessum dýrtíðarmálum þarf ekki margt að segja. Við munum eftir því, er samþ. var ábyrgð fyrir fiskframleiðsluna í landinu. Þá var sett inn ein gr. um, að flokkarnir skipuðu nefndir til að ráða fram úr dýrtíðarvandanum fyrir 1. febr. Þá voru ýmsir, sem ekki vildu samþykkja að síldarkúfurinn væri tekinn til að verðbæta fiskinn vegna dráttar á lausn dýrtíðarmálanna, svo að síldarkúfurinn yrði þannig sem svæfill fyrir Alþingi. Var þá skotið inn þessari lagagr. um skipun þessarar n. til að finna leið til úrbóta. Ég veit ekki einu sinni, hvort flokkarnir hafa skipað menn í þessa n., hvað þá meira, og þetta m.a. gerði ýmsa vondaufari um lausn málanna, þegar núverandi ríkisstj. var mynduð. Þessi frv., sem hér liggja fyrir, eru afleiðing af fyrrverandi stjórnarstefnu, eins og hæstv. fjmrh. er að sýna fram á í Nd., enda er ljóst, að ekkert af verkum núverandi ríkisstj. hefur leitt til þess, að þetta þurfi að koma fram. Þetta er því afleiðing af stefnu, en ekki undanfari. Ég álít, og það er í samræmi við skoðanir mínar á undanförnum árum, að þessi frv. um tekjuöflun séu ekki hin minnsta lausn á vandanum, heldur eru þau aðeins sjúkdómseinkenni á stefnu, sem búin er að sigla fjárhagnum í hið mesta óefni. Það er með þetta eins og aðra sjúkdóma, að þeir batna ekki, þótt kuklað sé við sjúkdómseinkennin, en það er það, sem gert er með þessum frv., því að ekki bólar á því enn þá, að taka eigi fjármálin þeim tökum, sem þörf er á. Ætti okkur þó að vera ljóst, að ekki er hægt að halda þessari stefnu áfram. Við þurfum sem sagt að miða kerfi okkar eftir þeim öðrum þjóðum, sem hafa viðskipti við okkur eða eru keppinautar okkar. Ekki er sjáanlegt, að enn sé vilji til að breyta um stefnu, og geri ég þá ráð fyrir, að ég geti ekki setið hér til loka án þess að reyna vilja fyrir öðrum stefnum. Afstaða mín til þessara frv. mótast af því, að á meðan ekki er vilji að breyta um stefnu, þá er það eins og með fiskframleiðsluna að fljóta áfram. Afstaða mín mótast af þessu, og sé ég ekki ástæðu til að setja fót fyrir þessa ríkisstj., þar sem von er til, að hún sjái að sér, og mun ég því láta þessi frv. afskiptalaus eða ef til vill greiða atkv. með þeim. En hitt, að þó að þetta sé gert til bráðabirgða, svo að ekki hlaðist yfirdráttur í landsbankanum, þá vil ég prófa, hvort ekki sé vilji til að breyta fjármálapólitíkinni.