27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

204. mál, brúargerðir

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem er flutt af samgmn. Ed., hefur enn sem komið er ekki sætt neinum sérstökum mótmælum.

Það var við 1. umr. af hálfu n. gerð grein fyrir því, að það hefði fengið ýtarlegan undirbúning og verður ekki rakið nánar.

Það er samið í samráði við vegamálastjóra eða var sent honum til umsagnar og hefur sætt ýtarlegri meðferð samgmn. beggja d. Og hygg ég, að ekki sé hægt að neita því, að það sé vel um það búið að flestu leyti, og eigi því að nægja að skírskota til þess, sem þar segir í grg. Og í trausti þess, að frv. megi fá góðan framgang og þar sem þetta er fyrri d. og 2. umr., vil ég vona, að hv. þm. sjái sér fært að láta það ekki að nauðsynjalausu tefjast.