10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. er nú ekki viðstaddur, en ég vildi aðeins gera örstutta aths. við ræðu hans. Ég get haft þessi orð mjög fá, því að hann ræddi aðeins um þetta frv. sem slíkt, en ekki sem einn þátt í þeim mikla lagabálki um hækkun tolla, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþ., en samt er það erfitt að ræða þetta mál sér.

Hv. frsm. hélt því fram, að þetta frv. kæmi lítið við hag almennings sem slíkt. Ef þetta er aths. við það, sem ég sagði hér, þá missir það marks. Ég sagði, að nokkur hluti þeirra vara, sem hér um ræðir, væru allverulegur þáttur í daglegri neyzlu almennings. Ég tek sem dæmi ávaxtasafa, saft, malt, öl, súkkulaði o.fl. Aths. sú, er hv. þm. gerði um hlutfallið á milli vísitöluhækkunarinnar og þessarar hækkunar, er óviðkomandi því, sem ég sagði. Ég talaði um tollana í heild, og þótt þetta frv. sé við lög frá 1939, er það í samræmi við tollskrána frá 1942. Auk þess hafa þessi gjöld verið hækkuð um 50% síðan. Nú leggur stjórnin til, að tollurinn hækki enn um 100%, og vöruverðið hækkar sem því nemur, og það er þetta, sem máli skiptir, en ekkert vísitöluhlutfall. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að frv. þetta benti ekki til neinna árása á lífskjör almennings. Það má nú kannske segja um frv. út af fyrir sig, en það er aðeins lítill þáttur í lagabálki, sem miðar í þá átt. Hv. þm. sagði, að það skipti ekki máli, hvort það sé tekið fram, hvort leyfð sé álagning á þá hækkun, sem felst í frv., eins og er varðandi frv. í Nd., um hækkun á aðflutningsgjöldum. Hann sagði, að þetta skipti ekki miklu máli vegna þess, að ef ekki yrði lagt á hækkunina, yrði hundraðstalan þeim mun hærri á þeim hluta vöruverðsins. sem lagt væri á. Með öðrum orðum, hv. frsm. er þeirrar skoðunar, að ekki megi lækka hundraðshluta álagningarinnar á heildarverðið frá því, sem nú er, og hans skoðun er sú, að 6. gr. frv. í Nd., sem er um verðlagseftirlitið eða hlutverk þess, að það sé óleyfilegt að leggja á tollahækkunina., sé blekking, því að eftirlitið geti að sama skapi hækkað álagningu á verð vöru, að frádreginni þeirri hækkun. Þá hefur þessi gr. ekkert gildi og er því aðeins blekking. Það væri fróðlegt að fá þetta staðfest af ríkisstj.

Ég held nú, að ég þurfi ekki að svara fleiru í ræðu hv. frsm., en hann sagði, að frv. þessi mundu hækka vísitöluna um 6 stig, en ég vil nú spyrja um það, hvort hækkun sú á flutningsgjöldum bifreiða, sem leiðir af benzínskattinum, sé hér reiknuð með. Hv. þm. Str. hélt því fram, að frv. þau, sem borin eru hér fram í dag, væru afleiðing af stefnu fyrrv. ríkisstj. Ég veit nú ekki. hvað hann á við með þessu eða hvort hann á við fjárlögin með þeim framkvæmdum, sem þar er gert ráð fyrir. Það er ekki það, sem deilt er hér um, að afla þurfi tekna til þess að mæta útgjöldum á fjárlögum, heldur hvort þetta sé hin rétta leið.