12.10.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég gat ekki skilið, að fyrirspurnin ætti við annað mál en ég drap á áðan, og mér þótti vænt um að heyra, að þessi hv. þm. ætlar ekki að fjölyrða um það. Hins vegar mátti honum það ljóst vera, að hann mundi beina athygli manna að þessu máli og engu öðru, þótt það hafi ekki verið tilgangur hv. þm. að ræða þetta mál út af fyrir sig, eins og hann sagðist hafa ætlað, og hann hafi gert þessa fyrirspurn vegna þess, að nánustu ættingjar hafi óskað eftir að vita, hver réttur þeirra væri í þessum efnum. Hv. þm. segist hafa reynt að fá þessari spurningu svarað með því að leita til þekktustu lögfræðinga, en orðið fyrir vonsvikum og þess vegna komið hingað. Þá hélt ég nú, að þessi hv. þm. og aðrir, sem hafa athugað þetta mál, og mætti bæta við, að þeir, sem þessa samkundu þekkja, búist varla við, að svör við slíku geti komið í umr. á Alþ., heldur í viðræðum við þekktustu lögfræðinga, sem mér skilst, að hv. 1. þm. Eyf. hafi leitað til.

Ég skal svo ekki frekar gera þetta að umræðuefni hér, en ég er sammála því, að nánustu ættingjar ættu að hafa mestan rétt í þessu efni, jafnvel þótt um alþjóðareign sé að ræða, eins og slíkan andans jöfur sem hér er um að ræða. Það mun ekki hafa verið rannsakað, hvort um slíka nána ættingja er að ræða, en ég vil leyfa mér að vona, að ég hafi ekki meitt tilfinningar neins náins ættingja, þar sem svo langt er liðið frá dauða skáldsins. Ég tel það náttúrlega mjög miklu máli skipta, hvort öld eða meira er liðið frá andláti eða nokkur ár. Það munu ef til vill vera skiptar skoðanir um það, hvað megi telja nána ættingja, en ég tel, að hér sé ekki um slíka að ræða, þar sem svo langt er um liðið.