05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Þetta mál, sem hér er um að ræða, er að mínu áliti mjög alvarlegs eðlis, því að okkur getur ekki verið sama um það, borgurum landsins, hvort byrjað verður á því, þegar þannig stendur á, að menn telja hentugt, að nota þessi vopn til þess að afgera mál manna á milli. En það er annað, sem kom mér til þess að segja hér nokkur orð, og það er um það, hvernig þessi fregn mundi vera til komin. Þegar ég sá þetta í Morgunblaðinu, þá þótti mér fregnin það merkileg, að ég vildi fá meira um hana að vita, og hringdi ég því til lögreglustjóra og spurði hann um málið. Hann sagðist ekki vita, hvernig Morgunblaðið hefði fengið að vita um þetta mál, en frá því var hringt til lögreglustjóra til þess að fá að vita, hvernig lægi í málinu, og virtist það vita talsvert um málið, og hann hefði þess vegna gefið nokkra skýringu á því. Hitt þykir undarlegt, hvers vegna hann afhenti ekki rannsóknarlögreglunni málið, eins og kom fram hjá hv. þm. og hæstv. ráðh. tók nokkuð upp. En þannig stendur á því, eftir því sem hann segir mér, að skýrsla um þetta atriði hafi verið send dómsmrh. alllöngu áður en hann fór vestur um haf og sér hafi ekki dottið í hug að skýra neinum frá þessu máli. En hjá Morgunblaðinu muni á þessum tíma hafa legið fyrir vitneskja um það, þannig að það þýði í raun og veru ekkert fyrir lögreglustjóra að þræta fyrir staðreyndir, en hins vegar mun hann hafa gefið mjög takmarkaðar upplýsingar. Ég áleit rétt að taka þetta fram.

Annars er það rétt, ef ég hef skilið hæstv. ráðh. rétt, að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar, sem hæstv. ráðh. lýsti hér yfir, að gerðar hefðu verið, þ. e., að hafa gefið fyrirskipun um það, að tolleftirlitið hefði strangara eftirlit með innflutningi, þó efast ég um það, þó að það hafi verið gert, ef ekki hafa verið gerðar neinar ráðstafanir um vinnubrögð tollgæzlumanna, að þær fyrirskipanir komi að liði. Ég álít, að þetta mál, sem ég tel eitt hið alvarlegasta mál, sem hefur komið hér í dagsljósið, hefði átt að vera sent rannsóknarlögreglunni í Reykjavík, þegar það barst í hendur dómsmrn. Og ég býst við, að það séu fáir eða enginn borgari í þessu landi, sem ekki gerir kröfur til þess, að slíkt mál eins og þetta sé rannsakað.

Þetta vildi ég taka fram, jafnframt því að ég hef talið mér skylt vegna þeirrar vitneskju, sem ég hafði um þetta mál, að skýra frá því, fyrst byrjað hefur verið á því að ræða þetta mál, eftir að það hafði legið í þagnargildi sennilega um mánaðartíma, og vitnið, sem kemur fram í dagsljósið, er Morgunblaðið, hvaðan sem það er þangað komið.