10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla mér ekki að blanda mér inn í umr. um þessi frv. og heldur ekki varðandi þær stórpólitísku yfirlýsingar hv. 4. landsk. eða hv. þm. Str., að hann mundi reyna að mynda aðra stjórn, áður en árið liði. En það voru ummæli hv. þm. Str. um annað atriði, sem ég vildi víkja að. Hann gat þess, að í l. um ábyrgð ríkisins vegna bátaútvegsins hefði verið ákveðið að skipa 4 manna n. til þess að gera till. varðandi þessi mál og að n. hefði átt að skila áliti fyrir 1. febrúar. Og hv. þm. spurði, hvort þessi n. hefði skilað störfum. Ég get upplýst, að þrír flokkarnir skipuðu menn í þessa n., en við myndun hinnar nýju ríkisstj. var þetta verkefni falið ríkisstj. sjálfri, og Alþfl. á að hafa forystuna um þessi mál. Þetta vildi ég, að kæmi fram að gefnu tilefni.