05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég álít, að það, sem hér hefur komið fram, bendi til þess, að það muni vera vilji Alþ., og ég geri ráð fyrir vilji þjóðarinnar, að fréttir um þetta mál hefðu verið birtar strax, og að það sé ekki vítavert að birta fregnina, hvorki af lögreglustjóra né Morgunblaðinu, heldur sé það vítavert, að þetta skuli hafa dregizt. Það virðist vera skoðun blaðanna, að þjóðin eigi kröfu til að fá að vita þetta strax. Það, sem ég sagði áðan, stafaði af því, að ég vildi fá að vita meira, eftir að ég kemst á snoðir um þetta, og til þess að vera viss um, að mig misminnti ekki, þá hringdi ég til lögreglustjóra núna. Hann sagði, að Morgunblaðið hefði hringt í 3 daga og sagzt birta þessa fregn, en hún var orðum aukin, eins og það hafði hana. Morgunblaðið hringdi til lögreglustjórans til þess að láta hann staðfesta fregnina og til þess að sannfærast um það, hvort það færi með rétt mál, enda stendur það ekki í fregninni, eins og sagt er frá henni í blaðinu og hv. 5. landsk. talaði um, að fyrstu heimildir séu frá lögreglustjóranum. Það er alveg þvert á móti sagt, að Morgunblaðið hafi komizt að þessu. Hæstv. dómsmrh. fékk um þetta að vita, og það er bersýnilegt, að lögreglustjóri telur ekki rétt að ræða gang málsins. Hann afhendir dómsmrh. málið og lætur hann ráða því. Hins vegar hafa dómsmrh. og lögreglustjóri séð, að þegar fregnin er komin út og mikluð, þá er miklu betra að draga úr fregninni og fá hana birta óbrenglaða en stimpast við lengur.

Lögreglustjóri sagði, að Morgunblaðið hefði hringt til sín í 3 daga og sagt, að það vissi fregnina og mundi birta hana. Ég vænti, að þessu verði ekki mótmælt framar og þessar upplýsingar verði teknar gildar. Ef menn efast um þetta, geta þeir hringt til Morgunblaðsins eða lögreglustjóra, þar sem báðir þessir aðilar hafa síma. Ég undirgengst það, sem hér hefur komið fram, fyrst lögreglustjóri hefur gefið upplýsingar um þetta, að þá beri honum að gefa frekari upplýsingar. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita um þetta. En ég sé ekki, að rétt sé að ásaka lögreglustjóra út af því, að ekki koma frekari upplýsingar, svo framarlega sem hann hefur ekki fengið fyrirskipanir um það frá dómsmrh. að gefa þær. Þaðan eiga upplýsingarnar að koma.

Varðandi það, sem gert hefur verið í málinu, þá vil ég segja það, að ég vantreysti tollinum. Ég álít, að hann hafi ekki nægilegt starfslið til þess að framkvæma slíka leit og sjá um það eftirlit, sem kæmi að gagni. Það þarf ýtarlegt eftirlit, ef hægt á að vera að koma í veg fyrir þetta. Ef þetta á að vera fullnægjandi, verður að auka starfslið tollgæzlunnar, og væri slíkt fyrirskipað, bæri að fagna því. Í annan stað ætti að vera búið að fyrirskipa rannsókn. En ég get vel skilið það, að sá dómsmrh., sem gegnir störfum um stundarsakir og tekur við málinu, eftir að það hefur legið í stjórnarráðinu, að hann geri það ekki. Í þriðja lagi ætti að gefa frekari upplýsingar um málið, svo að það drægi úr hræðslu, sem vakin hefur verið. Sé slíkt hægt, ætti dómsmrn. að láta lögreglustjóra gera það. Í fjórða lagi ætti að rannsaka, hvort nokkur frekari vopn hafa verið flutt inn í landið. Þetta eru þær ráðstafanir, sem ég álít að beri að gera. Hins vegar álít ég það miður farið, að verið sé að drótta því að vissum flokkum, að þeir standi að þessum innflutningi. Ég hygg, að það sé ekkert upplýst, sem gefi nokkurt tilefni til þess.