05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Varðandi ræðu hv. þm. Str. vil ég segja nokkur orð til að byrja með. Hv. þm. sagði, að það væri miður farið, að því skuli vera dróttað að einstökum flokkum, að þeir væru viðriðnir þetta mál, og það hefði ekkert upplýstst í þessu máli, sem benti til þess. Ég tel, að því hafi ekki verið dróttað að einstökum flokkum, að þeir stæðu fyrir vopnaflutningum til landsins. En í þeirri frásögn, sem blöðin birtu og rakin var til lögreglustjóra, voru engar upplýsingar gefnar um það, hvort einstakir menn stæðu fyrir þessu, hverjir þeir væru né hvar vopnin hefðu fundizt. Sögusagnir hlutu því að myndast um það, á hvern hátt þessi vopn hefðu verið flutt til landsins og hverjir væru valdir að vopnaflutningunum. Ég álít því, eins og fram kom í fyrri ræðu minni, að það sé mjög miður farið, að lögreglustjóri skuli gefa frá sér upplýsingar um þetta mál án þess að gefa frekari upplýsingar um það, hverjir standi að þessu, hvar vopnin fundust og þess háttar. Frekari upplýsingar vantar frá lögreglustjóra eða dómsmrn. eða báðum þessum aðilum. En úr því að birt var um þetta í blöðunum eftir þeim yfirvöldum, sem hafa með þetta að gera, lögreglustjóranum í Reykjavík, þá átti að fylgja því frekari upplýsingar. Blöðin í Reykjavík fengu að vita, að fluttar hefðu verið inn 3 hríðskotabyssur, og það gefið í skyn, að þær gætu verið miklu fleiri. Það var einnig gefið í skyn, að byssurnar væru ekki fluttar til landsins sem minjagripir. Slíkar upplýsingar, sem fengnar eru hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, hljóta að vekja tilgátur almennings. Það, sem ég tel rétt, er, að frá ábyrgum aðila, lögreglustjóranum í Reykjavík, á annaðhvort að gefa engar upplýsingar eða upplýsa málið nánar. Þær upplýsingar, sem fyrir lágu, hlutu að leiða til þess, að menn reyndu að ráða kollgátuna og geta sér til, hverjir væru líklegastir til að flytja inn byssur. Og þótt einhverjum dytti í hug einhverjir flokkar, þá var það ekki með neinum ólíkindum eftir þeim sögum víðs vegar úr heiminum, sem maður hefur heyrt. Menn hlutu að spyrja, og menn spyrja í dag og óska svars. Því fyrr sem svarið kemur, því betra fyrir alla, bæði Alþ. og aðra til að reyna að gera ráðstafanir til þess, að þetta komi ekki fyrir aftur. Ég vil bókstaflega ekkert um það segja, hverjir eru líklegastir til að flytja hríðskotabyssur til Íslands. Ég veit bara, að það eru vissir aðilar úti í heimi, sem eru líklegir til að flytja inn hríðskotabyssur til síns lands.