05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég vil geta þess, að ég sagði ekki, að ákveðinn flokkur væri nefndur í sambandi við þetta, heldur ákveðnir flokkar, því að þessar ásakanir hafa komið fram sín úr hvorri áttinni til skiptis, og skal ég ekki fara nánar inn á það. Sá hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, mætti heyra það rétt. (StJSt: Ég heyrði það rétt.) Hér í fregninni stendur, að ekki hafi verið hægt að upplýsa, hver hafi flutt þessi vopn inn. Ég skil ekki blásturinn út af þessu. Hvað hefði þessi hv. þm. gert, ef hann hefði verið í aðstöðu þessa embættismanns? Blað veit um fréttina og hringir dag eftir dag og segist skuli birta hana. Hvað á þá viðkomandi embættismaður að gera annað en að sjá þó um, að hún komi ekki úr lagi færð fyrir sjónir almennings? En fregnin er ekki komin til blaðsins frá lögreglustjóranum, en það er eðlilegt, að stórblað vilji birta þessa fregn. Það ber ekki að lasta, heldur hitt, að fregnin skyldi ekki koma strax.

Nú hefur dómsmrh. verið send um þetta skýrsla. Hvers vegna gefur dómsmrh. ekki um þetta skýrslu? Sér hv. þm. ekki, að hér var tilvalið fyrir dómsmrh. að grípa inn í og upplýsa málið nánar? Það hafa engar upplýsingar verið gefnar um það, hvernig málið liggi fyrir. Lögreglustjóri og hans menn eru engir rannsóknardómarar. Ef rannsóknarlögreglan getur ekki gefið upplýsingar um svona hluti, þá getur lögreglustjóri það ekki. Hann getur ekki gefið þær upplýsingar, sem hann ekki hefur. (StJSt: Hvers vegna gefur hann hálfar upplýsingar?) Hann gefur aðeins þær upplýsingar, sem til eru, og það var gert til þess að koma í veg fyrir, að birtar væru villandi upplýsingar. Vill þessi hv. þm. halda því fram, að það hefði átt að þegja, þangað til hægt var að upplýsa málið að fullu, þangað til vitað var, hver flutti vopnin inn o. s. frv., og þegja alveg yfir því, ef ekki var hægt að upplýsa það? Það var sagt samvizkusamlega, sem vitað var, þegar blað, sem vissi um fregnina, spurði eftir því. Vitanlega gat dómsmrh. gripið inn í á sínum tíma og gert sínar ráðstafanir gagnvart þjóðinni og þeim, sem eiga að rannsaka málið. Ég sé ekki ástæðu til að dæma embættismann, sem hefur aðeins gert það, sem skylda hans var að gera. Ég vænti þess, að ég þurfi ekki að tala frekar í þessu máli, enda tel ég þetta mál liggja það ljóst fyrir, að ekki sé hægt að ásaka lögreglustjóra fyrir rangar sögusagnir.