05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Hv. 5. landsk. hefur nú þegar tekið undir þær dylgjur, sem flokksbræður hans hafa haldið uppi í sambandi við þetta mál. En þetta kemur úr hörðustu átt, þegar það er vitað, að þessir sömu menn hafa legið á málinu, án þess að þing eða blöð hafi nokkuð um það fengið að vita. Meðferð þess hefur verið slík, að það hefur ekki einu sinni verið látið ganga eftir einföldustu réttarfarsleiðum. En meðan slík vinnubrögð eru viðhöfð af dómsmrh. notar blað hans málið til pólitískra dylgna og getsaka. Það er nú vitað, að ekki er enn farið að fá rannsóknarlögreglunni málið í hendur. Og sér nú ekki hv. þm., hvar svona vinnubrögð koma fyrst niður? Sé það virkilega meining þessara manna að vinna gegn því, að inn séu fluttar byssur til að drepa menn með, þá verður að gera ráðstafanir til þess að rannsaka það mál, en ekki liggja endalaust á því til þess að geta í skjóli þess haldið uppi pólitískum getsökum í garð andstæðinganna.