05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hv. þm. Str. veit það manna bezt, að ef eitthvert blað hringir til lögreglustjóra eða einhvers annars manns, sem getur gefið upplýsingar um eitthvert mál, og óskar eftir upplýsingum um slíkt mál, þá segir sá, sem til er hringt, annaðhvort ýtarlega um málið eða þá ekkert, ef hann telur sér ekki fært að segja neitt um það — ef hann fer rétt að —, heldur en að gefa þær upplýsingar, sem ekki eru tæmandi um málið, en eru nægar til þess, að um málið skapist alls konar sögusagnir og tilgátur. (HermJ: Hvað sagði flokksblað hæstv. dómsmrh. og hv. 5., landsk. um, að svo og svo margir bæir í Gullbringu- og Kjósarsýslu væru sekir í öðru máli, sem eins gátu myndazt um alls konar sögusagnir og tilgátur?) Mér er ekki kunnugt um þetta mál sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu né það, sem sagt var um það í blöðunum hér í Reykjavík. En hitt er víst, og hefur ekki verið leiðrétt af lögreglustjóranum í Reykjavík, að það hefur verið gefið upp af honum, að hingað hafi verið fluttar til landsins þrjár hríðskotabyssur. Hann hefur gefið þær upplýsingar, að inn hafi getað verið fluttar ólöglega fleiri byssur og ólíklegt sé, að þessar hríðskotabyssur hafi verið fluttar hingað til landsins sem minjagripir. Og ef á að gefa þessar upplýsingar, þá verður að mínum dómi að gefa meiri upplýsingar í málinu, og ég veit, að hv. þm. Str. kann vel að meta það sem gamall rannsóknardómari.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sambandi við þau orð, sem ég lét falla í minni ræðu, vil ég segja það, að ég stend fullkomlega við það, sem ég sagði, og ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. neitar því ekki, að það eru fyrst og fremst tveir flokkar í hverju þjóðfélagi sem er, jafnvel á Íslandi, sem líklegir eru til þess að flytja inn skotvopn til síns eigin lands, þessir flokkar, sem staðnir hafa verið að því um heim allan að hafa notað skotvopn og vilja nota skotvopn frekar en atkvæði þjóðfélagsþegnanna til að ráða málum til lykta. (GJ: Vill ekki hv. ræðumaður segja, hvaða flokkar þetta eru?) Það eru kommúnistar og nazistar, ef hv. þm. Barð. vill taka eitthvað upp hanzkann fyrir þá. (EOl: Er flokkur hæstv. dómsmrh. að flytja inn skotvopn í blóra við þetta?) Ég veit, að flokksmenn hæstv. dómsmrh. vita, að enginn í þeim flokki lætur sér detta slíkt í hug. (EOl: Flokkur dómsmrh. er einn allra flokka á Íslandi, sem hefur beitt hervaldi og látið flytja menn af landi burt.) Þessi framítaka hv. 2. þm. Reykv. kemur úr hörðustu átt, því að hann fyllir þann flokk manna, sem heldur því fram, að einn flokkur eigi að vera til í þjóðfélaginu og eigi öllu að ráða í hverju landi og aðrir flokkar eigi ekki að líðast. (EOl: Þetta er uppspuni.) Það er ekki uppspuni. Hv. 2. þm. Reykv. þekkir vel, hvað félagi Stalin lét fylgja þeirri stjórnarskrá, sem gildir í þeirri samkundu, þar sem alltaf eru réttar upp allar hendur með þeim málum, sem stjórnarvöldin vilja, að gangi fram (EOl: Menn þekkja, hvernig stjórnarhættirnir voru í alþýðusambandinu, meðan flokkur hæstv. dómsmrh. og hv. 5. landsk. þm. réð þar.), og það er talið af þessum hv. þm., 2. þm. Reykv., og hans nótum, að það sé það fyllsta lýðræði. Og þó að þeir alltaf skreyti sig með orðinu „lýðræði“ og haldi því fram í orði kveðnu, að lýðræði eigi að ríkja í landinu, þá verður það svo, að það er í raun og veru ekki annað lýðræði en kommúnistískt „lýðræði“, sem þeir vilja, — og það vitum við, hvernig er. Það vilja þeir innleiða einnig hér á Íslandi, eins og ég tók fram.