13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég hef um nokkra daga undanfarið ætlað mér — en hef ekki getað það af sérstökum ástæðum — að beina örlítilli fyrirspurn til þess hæstv. ráðh., sem í stað annars ráðh. gegnir störfum dómsmrh., þ. e. til hæstv. samgmrh. Fyrirspurnin er tvíþætt. Í fyrsta lagi þannig, hvort hæstv. ráðh. viti, hvenær Finnur Jónsson dómsmrh. muni koma hingað og taka við störfum sem dómsmrh., ef svo fer, að hann gegni þeim framvegis. Og í öðru lagi, hvort sá hæstv. ráðh., sem hér er nú staddur og fer með dómsmál í stað Finns Jónssonar, treystir sér til þess eða ekki að taka ýmis þau mál fyrir, sem heyra undir dómsmálin og þannig er háttað um, að hæstv. dómsmrh. hafði haft með þau að gera, en hefur yfirgefið þau að nokkru leyti í miðjum klíðum. Af því, sem ég á hér við um slík mál, skal ég nefna aðeins eitt, hið svo kallaða rannsóknarmál á sakadómarann í Reykjavík. Um málefnislega hlið þess máls er mér ekki kunnugt, enda fer ég ekki út í það, heldur hitt, að nú er liðið á sjöttu viku síðan hæstv. dómsmrh. lagði leið sína vestur um haf, og bæði mér og öðrum, sem kunnugir vorum hans för, kom ekki til hugar, að dvöl hans yrði svo löng vestur þar, því að annars hefði verið innt eftir því, hvort hann ekki sæi sér fært að inna af hendi aðkallandi mál, áður en hann færi, heldur en láta þau liggja í salti á óheppilegum tíma og óheppilega lengi. Þó að nú sé komið á sjöttu viku síðan þessi hæstv. ráðh. fór frá embætti sínu hér, þá er enn lengra síðan málið kom fyrir, sem varð til þess, að sakadómarinn veik úr embætti, — af því að það hefur þótt rétt, þegar eitthvað þarf að rannsaka í fari embættismanns, að heimila að víkja honum frá um stundarsakir. Og er það ekkert, sem til ósóma má verða viðkomandi embættismanni út af fyrir sig, því að komi hann aftur heill til embættis, er hans heiður hinn sami sem áður var eða meiri. En þegar slíkri rannsókn er lokið sem þessari, þá er tilætlunin, ef ekki verður úr, að málshöfðun snúist um sjálfa embættisfærsluna, þ. e. ekki sýnist, að um nein mistök eða misgáning sé að ræða í henni, að viðkomandi embættismaður eigi þess kost að halda sínu starfi áfram, þangað til þá frekar yfir lýkur. En ef á að höfða mál gegn embættismanni, þá á það að gerast svo fljótt sem unnt er. Og ef ekki á að höfða mál, þá á það líka strax að afgerast. En þetta, að dómari sé látinn svífa þannig milli himins og jarðar svo lengi, nálgast að vera það, sem kallað er taugastríð og menn með nokkurri æru forðast að láta eiga sér stað. Ég hefði álitið æskilegast, að þetta hefði verið látið afgerast, áður en Finnur Jónsson fór af landi burt. Það virðist eðlilegast, þangað til andsvör liggja fyrir, að maður, sem í hans stöðu er sem dómsmrh. í fjarvist hans, gæti ákveðið um gang málsins frekar. Það væri miklu eðlilegra en að láta þetta mál bíða á þá lund sem verið hefur, enda má líka höfða mál gegn manni, sem er í störfum sem embættismaður, alveg eins og gegn manni, sem er frá störfum þeim vikinn.

Nú er þetta, sem ég spyr um, hvort sá hæstv. dómsmrh., sem hefur verið falið að fara með dómsmálin sem ráðh. í fjarveru Finns Jónssonar, treysti sér ekki til þess að gera einhverja réttingu þessa máls, sem ég nú hef rakið, og þá hvers vegna hann hefur ekki treyst sér til þess fram að þessu.