13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég get svarað þessum spurningum í þeirri röð, sem þær eru fram bornar.

Mér hefur borizt skeyti frá hæstv. dómsmrh., Finni Jónssyni, sem nú dvelur í Ameríku, um það, að hann muni í síðasta lagi leggja af stað heim á leið 17. þ. m. Í dag er 13. des. Það munu því vera í mesta lagi 4 dagar, þangað til hann leggur af stað, og væntanlega vika, þangað til hann kemur heim, því að ferðin mun verða flugleiðis.

Hitt atriðið, sem hv. þm. V-Sk. spyr um, er, hvort ég muni treysta mér til í fjarveru hans að afgreiða það mál, sem hv. þm. V-Sk. minntist á. Um þetta skal ég aðeins geta þess, að það var svo um talað milli hans og mín að þó að ég færi með þessi störf, dómsmálin, til bráðabirgða og afgreiddi þau mál, sem ekki þyldu bið, heldur krefðust bráðrar úrlausnar, þá yrði látin bíða afgreiðsla þeirra mála, sem ekki krefðust bráðrar úrlausnar, þangað til hann kæmi heim aftur eða öðruvísi skipaðist um embættið. Ég hef þess vegna engar ráðstafanir gert til þess að hafa afskipti af þessu máli, sem hv. þm. V-Sk. spyr um, og mun ekki gera, nema ég fái einhverjar nýjar fregnir um það, að heimkomu hæstv. dómsmrh., Finns Jónssonar, muni seinka. Þar sem líka er líklegast, að ekki verði nema örfáir dagar þangað til, er tæpast ástæða til þess.

Hv. þm. V-Sk. sagði, að ekki hefði verið gert ráð fyrir svo langri fjarveru hæstv. dómsmrh. eins og komið hefði á daginn. Það er rétt, að formi til a. m. k., að það sé komið á sjöttu viku síðan hann fór til útlanda, en nákvæmlega er það fimm vikur og einn dagur. En með hliðsjón af því, að heimkoma hans hefur ekki dregizt nema litlu lengur en gert var upphaflega ráð fyrir um hans heimkomu, sé ég ekki ástæðu til þess fyrir mig að hafa sérstakar framkvæmdir í málinu og mun ekki gera það, nema sérstakar ástæður verði fyrir hendi, eins og ég hef tekið fram. Þessi afstaða mín er þannig sérstaklega vegna þess, að hæstv. dómsmrh. er aðili í þessu máli.