13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Ég vil út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri einkennilegt, að þessar umr. skuli vera teknar upp nú, segja það, að mér skilst, að fyrirspurn hafi komið frá hv. þm. V-Sk. um þetta mál og þá hafi þm. Str. virzt eðlilegt að láta í ljós álit sitt á þessu. Og ég vil segja það, að ég sé ekkert óviðurkvæmilegt í þessu, heldur tel ég það þvert á móti rétt.

Hæstv. samgmrh. segir, að það sé að sumu leyti óþægilegt fyrir sig að úrskurða um þetta málefni, vegna þess að dómsmrh. hafi verið svo vel inni í þessu máli og verið, eins og hann sagði, „aðili í málinu“. Að vissu leyti má þetta til sanns vegar færa, að dómsmrh. hefur nokkuð komið inn í málið, en ég segi það sem mína skoðun, að mér sýnist, að hæstv. samgmrh. hefði verið betur fallinn til þess að ákvarða um framhaldsmeðferð málsins en hæstv. dómsmrh. vegna þess, að hann var ekki á neinn hátt aðili að þessu máli. Og vegna þess að hæstv. dómsmrh. telur sig aðila að þessu máli, þá væri bezt viðeigandi, að einmitt maður eins og hæstv. samgmrh. hefði úrskurðað um framhaldsmeðferð þess, þannig að það, sem hæstv. samgmrh. finnst verr viðeigandi, er í mínum augum ástæðan fyrir því, að ég hefði talið æskilegt, að hann hefði farið með framhaldsmeðferð málsins. Ég segi þetta ekki til að kasta rýrð á hæstv. dómsmrh., heldur leiðir það af eðli málsins. Nú segir hæstv. samgmrh., að sér hafi verið svona allt að því meinað að kveða upp úrskurð um málið af því að hæstv. dómsmrh. hafi verið búinn að ákveða, áður en hann fór, að málið skyldi bíða eftir því, að hann kæmi til baka. Ég verð að undirstrika það, að þetta finnst mér ámælisvert, að hæstv. dómsmrh. skuli fara af landi um óákveðinn tíma, vera búinn að víkja embættismanni úr starfi og láta fara fram rannsókn, hefur síðan athugað þá rannsókn í 6–8 daga, en fer samt burtu óákveðinn tíma og ákveður, að þetta skuli óafgert, og enginn viti, hvenær það mundi verða. Þetta finnst mér ámælisvert í þessu máli, einmitt að svona hefur verið að farið. Auðvitað hefði það verið rétta meðferðin, að settur dómsmrh. færi með málið og úrskurðaði það, ef nokkuð drægist, að dómsmrh. kæmi til baka. Það er þessi málsmeðferð, sem hér hefur verið gagnrýnd, og svo það, að hæstv. samgmrh. skyldi taka við málinu, en hafa það ekki til úrskurðar. Það hefði verið viðurkvæmilegra, að þannig hefði verið á málinu haldið, og það er ekki viðeigandi af hæstv. samgmrh. að hreyta svona í menn fyrir það að benda á það, að þessi málsmeðferð er ekki viðeigandi. Það voru svo ríkar ástæður til að finna að þessu, að ástæða var til að vona eftir slíkar aðfinnslur, að hæstv. ráðh. tæki þessu með rökum, en ekki með neinum svigurmælum um það, að það sé óeðlilegt, að að þessu sé fundið. Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, því að það er ekki tilefni til þess.