13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Það eru aðeins örfá orð. Ég var ekki að finna að því eða hreyta í menn fyrir það, þó að þeir spyrðust fyrir um afgreiðslu málsins. Hér var spurt og svarað, og þar með átti málið að vera úti. En þegar fyrirspurnin var notuð til árása, eins og hv. þm. Str. gerði, þá gat ég ekki orða bundizt. Hvað því viðvíkur, að hér sé um ósæmilegan drátt að ræða, þá hef ég lýst því áður, að ég get ekki séð, að drátturinn hafi verið annar og meiri en oft hefur átt sér stað í mörgum svipuðum tilfellum áður, svo að ég get ekki séð að með þessum drætti hér hafi nokkuð óvenjulegt komið fyrir. Þvert á móti er þetta svipað því, sem komið hefur fyrir í öðrum tilfellum. Hitt er nýtt, að þessi dráttur, sem orðið hefur af eðlilegum ástæðum, vegna þess að hæstv. dómsmrh. er í annarri heimsálfu, sé notaður til þess að víta hann fyrir þá afgreiðslu málsins, sem hann viðhafði, áður en hann fór af landi burt. Annað hef ég ekki ástæðu til að ræða.