10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Hv. 7. landsk. hefur tekið ýmislegt fram af því, sem ég hefði viljað segja, og get ég þá sleppt því. Sérstaklega vildi ég þó taka undir áskorun hans um það, að hv. 4. landsk. og hans flokkur geri grein fyrir því, hvernig hann telji. að eigi að komast út af fjárlagaafgreiðslu á þessu þingi, ekki með slagorðum, heldur með skynsamlegum rökum um það, hvernig slíkt hefði mátt verða mögulegt og það með tilliti til þeirra tillagna, er hann og flokkur hans höfðu borið fram um hækkun útgjalda fjárl. Það er vitanlega meiri ástæða til þess að gera þessa kröfu til þessa flokks sökum þess, að fjárlagaafgreiðslan nú og hin miklu gjöld, sem ríkissjóður verður að krefjast af þjóðinni, er að miklu leyti arfur frá valdatímum þessa flokks. Hv. 4. landsk. sagði í ræðu sinni áðan, að þessi frv., sem stjórnin hefur lagt fyrir Alþ., væru ráðstafanir til að hækka vöruverð, og var það á hv. þm. að heyra sem það væri höfuðtilgangurinn að hækka vöruverðið, en ekki að afla ríkissjóði tekna. Nú má segja, að þegar tollar eru lagðir á vöru, þá hækki hún sem því svarar í verði. En hækkað vöruverð þarf ekki undir öllum kringumstæðum að verða til þess að rýra lífskjör almennings, þeirra, sem skynsamlega lifa. Ef tollur er lagður á ónauðsynlega vöru og hún hækkuð í verði, þá fæ ég ekki séð, að það verki á, nokkurn hátt í þá átt að rýra lífskjör almennings. Fyrir skömmu var hækkað verð á áfengi og tóbaki. A.m.k. hvað áfengið snertir, þá geri ég ekki ráð fyrir því, að talið sé, að verið sé að rýra lífskjör almennings eða þeirra manna, sem skynsamlega haga sér, því að vitanlega þarf enginn maður að kaupa áfengi frekar, en hann vill. Það er ekki sama að segja um tóbakið, því að mörgum, er vanið hafa sig á tóbak, er það eins konar nauðsyn. En samt má svipað um það segja og áfengið. Í byrjun þarf enginn að venja sig á tóbak. Það geta því verið beinlínis heppilegar ráðstafanir vegna almennings í sumum tilfellum að hækka verð á vissum vörum, sem eru óþarfar og skaðlegar fyrir fólk, eftir því sem talið er. En eins og hv. 7. landsk. tók fram hér, varð til einhverra ráðstafana að gripa, eins og ástatt var. Og menn skulu minnast þess, að það er fyrrv. stjórn, sem hv. 4. landsk. átti sæti í, er bjó svona í haginn um fjárlagaafgreiðslu fyrir núv. stjórn. Nú mun svo hafa verið, er fjárl. voru afgr. til 3. umr., að þá var tekjuhalli þeirra um 30 millj. kr. Talið hefur verið að Sósfl. hafi borið fram hækkunartill., er numið hafa 20 millj. kr. Ekki væri ólíklegt, að aðrir þm. hafi borið fram hækkunartill., er áttu rétt á sér, er næmu 10 millj. kr. Það vantaði því 60 millj. kr. í raun og veru, ef fylgt væri stefnu 4. landsk. og hans flokks í fjárlagaafgreiðslu. Ég verð að taka undir það með hv. 7. landsk., að það væri ákaflega fróðlegt að fá að heyra, hvernig 4. landsk. hefði viljað afla þessara 60 millj. kr. á einu ári umfram þau gjöld, er nú hvíla á þjóðinni. Það þýðir vitanlega ekki neitt að segja sem svo, að þetta megi taka af þeim ríku eða þess háttar. Það verður að sýna fram á það með rökum, að þetta fé hafi verið hægt að fá á annan hátt, en hér er lagt til.

Síðasti ræðumaður talaði um 3 leiðir, sem hægt hefði verið að fara við fjárlagaafgreiðslu á þessu þingi: Skera niður gjöldin, auka beina skatta eða fara þá leið, sem lagt er til í stjfrv. Mér finnst í raun og veru ekki sé nema um tvær meginleiðir að ræða. Önnur er sú að skera niður útgjöld, hin að afla tekna í ríkissjóð. Það er svo annað mál, hvernig þessu er jafnað niður á þjóðina, þótt það sé að vísu mikils vert atriði. Ég vil láta þá skoðun í ljós, að rétta leiðin og áreiðanlega eina færa leiðin, eins og komið var, hafi verið að skera niður útgjöld ríkissjóðs með ýmsum ráðstöfunum. Ég hef enga trú á því, að þessi þjóð, sem telur ekki nema rúmlega 100 þús. manns, muni standast það til lengdar að hafa fjárl. upp í 200 millj. kr. þrátt fyrir það lága peningagengi, sem nú er hér á landi. Ég hef enga trú á því, að þetta verði framkvæmanlegt til lengdar. Ég er ekki viss um, eins og hér var orðað áðan, að það eina, sem ætti að skera niður, væri framlag til verklegra framkvæmda. Það er vitanlegt, að ríkisreksturinn hér á Íslandi er orðinn miklu dýrari og stórkostlegri að tiltölu en hjá nokkurri annarri þjóð. Og það er þar, sem fyrst og fremst þyrfti að gera ráðstafanir til að spara og koma á skynsamlegri vinnubrögðum en verið hefur. En sá stjórn, sem hv. 4. landsk. tók sæti í, á ekki svo lítinn þátt í því, að ríkisreksturinn er orðinn svona dýr. Hann mun ekki hafa aukizt svo litið á þeim rúmu 2 árum, er sú stjórn sat við völd. En það er vitað mál, að það, sem kannske var nauðsynlegast af öllu, verður ekki gert að neinu ráði á þessu þingi, sem nú fer senn að ljúka störfum. Og eftir því sem verið hefur undanfarið, má búast við, að slíkt verði ekki gert, fyrr en neyðin kallar á slíkar ráðstafanir. Og með tilliti til þess, þá held ég, að hver og einn hv. þm. sé skyldugur til, ef hann vill bera ábyrgð á sínum gerðum frammi fyrir þjóðinni, annað hvort að fallast á þær till., sem ríkisstj. hefur fram borið, eða benda á aðrar leiðir jafnáhrifaríkar, til þess að ríkið fái staðizt. Í þriðja lagi væri það, ef einhver væri til þess búinn á stundinni að benda á örugga leið til þess að færa gjöld ríkisins niður. Það getur vel verið, að hv. 4. landsk. geti komið af stað verkföllum út af þessum frv. Það kann að vera, að hann geti það. Og um það skal ég ekkert segja, hversu mikið tjón þjóðfélagið kann af því að bíða. En því ætla ég að spá honum, að þótt hann geti komið hér öllu í öngþveiti og svo geti skipazt, að hann eigi sjálfur og hans flokkur að eiga þátt í að taka við stjórn landsins, þá verða þeir að samþykkja gjöld á þjóðina, sem á einhvern hátt koma niður á almenning alveg eins og frv. þau, sem hér liggja fyrir, slíkt verður þá óframkvæmanlegt. En ég álít það muni vera nokkuð erfitt að sannfæra fólk um það, þótt undarlegt sé, hvað hægt er að segja fólki nú til dags, að í það óendanlega sé hægt að krefja ríkissjóð fjárframlaga, en þegar ríkissjóður þarf á tekjum að halda, þá sé verið að pína þjóðina um aukin gjöld. Það er að vísu eins og sumir menn haldi, að ríkissjóður sé uppi í himninum og að úr honum renni peningar yfir landið, án þess að nokkur þurfi í hann að greiða, þegar á sömu fundunum er verið að skora á þingið að lækka tolla og skatta og auka fjárframlög til einhvers, sem þeim kemur vel, sem fyrir þessu standa. En að mikill hluti fólks sé þannig orðinn í hugsunarhætti, að þetta fái til lengdar fylgi, því á ég bágt með að trúa. Sé svo komið, mun ekki langt eftir fyrir okkur Íslendinga sem sjálfstæð þjóð.