26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. mun kunnugt, hefur komið fram á þingi Bandaríkjanna till. frá einum þingmanni um að bjóða Íslandi að gerast fylki í Bandaríkjunum. Þó að ég þykist vita, að ekki aðeins allir hv. þm., heldur líka öll þjóðin telji þetta slíka fásinnu, að þess háttar till. komi fram, að við Íslendingar eigum erfitt með að taka svona hluti alvarlega og erfitt með að skilja, að mönnum hjá þjóð, sem vill vera frjáls, skuli geta dottið í hug slíkt skilningsleysi gagnvart rétti okkar til þess að lifa sem frjáls þjóð, — finnst mér samt rétt, að fram á okkar þjóðþingi komi — eins og víðar í löndum hefur komið, þegar svipað hefur komið fyrir — skoðun okkar á þessu, þó að manni finnist reyndar málið vera langt fyrir neðan það, að það sé endilega sjálfsagt, að þær skoðanir okkar komi þannig í ljós.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún muni ekki einmitt nú nota tækifærið til þess að gefa slíka yfirlýsingu til þess að tala hér fyrir þjóðarinnar hönd um málið.