10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 4. landsk. hafi réttilega vítt það, þegar hann tók fyrst til máls við 1. umr. málsins, að máli eins og þessu og þeim frv., er því fylgja, skuli kastað inn í þingið fyrirvaralaust, án þess að þm. hafi getað kynnt sér þau að nokkru. Það er ástæða til að vita þessi vinnubrögð. En það væri kannske ekki mikið um að sakast, ef þetta væri í fyrsta skiptið, sem þetta kæmi fyrir, og ætla mætti, að það henti ekki aftur. En síðan ég kom hingað á Alþ., hefur naumast borið svo að stórmál, að því hafi ekki verið kastað inn í þingið. Og þetta átti sér líka stað, þegar hv. 4. landsk. var ráðh. og húsbóndi þessarar virðulegu stofnunar. Hverju stórmálinu á fætur öðru hefur verið kastað hér inn í þingið eins og launungarmáli og þm. ætlað að taka afstöðu til þess. Einkum hefur verið ætlazt til þess, að þm. tækju afstöðu til slíkra stórmála á næturfundum. Það er því hér verið að víta hluti, sem eru vítaverðir og um leið lítilsvirðing á þm. sjálfum. sem ekki ætti að eiga sér stað.

Það er annað, sem ég ætla líka að vita, og það er það, að þegar stjórnin leggur fyrir þingið frv., skattafrv. og tollafrv., þá eru vinnubrögðin þannig, að fundir eru í báðum d., og fjmrh. á þess ekki kost að vera viðstaddur, og þm. eiga þess ekki kost að beina umr. til ráðh. Sérstaklega væri nauðsynlegt, að þessi skattafrv. væru ekki samtímis fyrir báðum d., því að mér þykir eðlilegt, að einhverju væri beint til ráðh., sem hann þyrfti að svara.

Ég vil segja það í sambandi við þetta mál, að ég er andvígur því stjórnarsamstarfi, sem fyrir nokkru var hafið, og ég var líka andvígur því, að Alþfl. ætti samstarf við Sjálfstfl. á árunum 1944–1946. Ég er á hverjum tíma andvígur því, að Alþfl. sé í samvinnu við höfuðandstæðing sinn í aðalmálunum. Það er ekki hægt að samræma það jafnaðarstefnunni. Það var heldur ekki hægt að samræma það, þegar þm. Sósfl. voru í samstarfi með Sjálfstfl. og Alþfl. Það virðist því vera sá munur á mér og þm. Sósfl. að þeir undu sér vil í stjórnarsamstarfinu, en ég taldi það, jafnt þá sem nú, alger svik við jafnaðarstefnuna. Ég er því sjálfum mér samkvæmur um þetta, en þeir naumast.

Ég var andvígur þeirri stjórnarsamvinnu, sem hafin var upp úr áramótunum, og vænti mér lítils góðs af henni fyrir Alþfl. Af þessu leiðir, að ég verð fyrir minni vonbrigðum, en aðrir og teldi það alveg sérstakt, ef nokkuð gott leiddi af slíku samstarfi.

Á árunum 1944–1946 áttu sér vissulega stað tolla- og skattahækkanir. Á þeim sama tíma óx líka dýrtíðin. Meðan þm. Sósfl. voru í því samstarfi, höfðu þeir ekki hátt um þessa hluti. Þá var ekki talað um, að verið væri að þröngva sköttum á almenning. Þá var dregin fjöður yfir allt slíkt með einu lausnarorði: „nýsköpun“.

Nú á að hækka skattana með þeim frv., sem hér hafa verið lögð fram. Eitt leiðir af sér skattahækkun, sem nemur 1.5 millj. kr., annað skattahækkanir, sem nema 2 millj. kr., og hið þriðja, sem nemur 31,6 millj. kr., eða samtals 35,1 millj. kr. fyrir 3/4 hluta ársins, en næðu þau yfir allt árið, ættu þau að hafa verið eitthvað á fimmta tug milljóna. Ég þykist vita, að ef þm. Sósfl. hefðu enn verið í stjórn, hefðu þeir yfirgnæft óþægindin af þessum frv. með „nýsköpun“, og ef ekki hefði dugað að segja það, þá með því að hrópa það og feitletra, en óþægindin hefðu skollið á þjóðinni þrátt fyrir það.

Alla haustmánuðina sátu fulltrúar þjóðarinnar við að koma saman fjárlagafrv. Það þótti sýnt, að erfiðlega gengi að ná endunum saman, útgjöldin mundu verða nokkru hærri en tekjurnar, og menn töluðu snemma á haustmánuðum um 30–40 millj. kr. halla á fjárl. Þá heyrðist enginn benda á leið til að jafna þennan halla og um þetta hefur verið þagað þangað til nú, einum 9–10 vikum eftir að ný stjórn hefur tekið við völdum. Nú fáum við skattafrv. dembt yfir okkur, og við eigum að afgreiða þau, áður en sól er af lofti. Það var gat á sokknum hjá hinni nýju stjórn þegar fjárlagafrv. var hér til annarrar umr., gat, sem þurfti 30–40 millj. kr. til að stoppa í, og það var byrjað að stoppa með því að hækka álagningu á brennivini og tóbaki og fá 15 milljónir kr. af vesalingum þjóðfélagsins í viðbót við það, sem áður var, og var það þó ekkert smáræðis fé, eða um 39 milljónir. sem ríkissjóður hafði af þessari sölu sinni áður. Ég hefði glaðzt yfir þessu, ef það gæti orðið til þess, að menn hættu að drekka, en það verður ekki til þess. Það verður eingöngu til þess, að ríkissjóður sölsar undir sig 11/2 tug milljóna í viðbót við það, sem áður var. Enginn flokkur beitti sér gegn þessu, þegar það var keyrt hér í gegn á einum sólarhring.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er smáræði eitt. Það á ekki að gefa nema 11/2 milljón kr. Samkvæmt því á að hækka gjald af sælgæti, kakaó, kaffi, gosdrykkjum og tóbaksvörum.

Ég get ekki tekið undir það með hv. 4. landsk., að samþykkt þessa frv. þröngvi svo mjög kosti almennings. Það getur hver maður í alþýðustétt algerlega hætt að nota þessar vörur og gæti hætt að láta ríkissjóð auðgast á kaffi og gosdrykkjum. Hver maður í alþýðustétt getur látið þetta eins og vind um eyrun þjóta, en ef almenningur gerði það, yrði ríkissjóði enginn tekjuauki að þessu, og því miður bregzt þjóðin ekki þannig við þessu máli, og það er að nokkru leyti hennar eigin sök, ef þessi skattur leggst þungt á herðar hennar.

Það er eitt af meginstefnumálum Alþfl. og allra sósíalistískra flokka að ganga ekki inn á að skattleggja nauðsynjavörur með tollum, hvorki með vörumagns- eða verðtollum. Hins vegar hafa slíkir flokkar staðið að fjáröflun í ríkissjóð með tollum af munaðarvörum og óþarfa. Þetta fyrsta frv. brýtur því í raun og veru ekki í bága við „prinsip“ jafnaðarmanna í skattamálum. Hér er um óþarfa vöru að ræða, og jafnaðarmenn geta samþykkt. að á þær séu lagðir tollar. Kaup slíkrar vöru þurfa ekki að lenda á öðrum en efnamönnum, sem vilja leyfa sér að kaupa hana. En jafnaðarmenn geta ekki verið með milljóna álagningu á vörur, sem ekki er hægt fyrir almenning að neita sér um að kaupa. það er vissulega auðsætt mál, að þegar kemur að frv., sem nú er verið að ræða í Nd., þegar á að hækka vörumagns- og verðtolla yfirleitt, þá er komið inn á svið þeirra vara, sem almenningur kemst ekki hjá að kaupa, en það má láta bíða að ræða, þangað til það kemur hingað.

Ég get sagt það, að í sjálfu sér tel ég mér það fært að greiða atkv. með frv. eins og þessu, um aukna skattlagningu á ýmiss konar munaðarvörur, og ég viðurkenni líka þörfina hjá stjórninni að fá nýjar tekjur, sem nema 35–40 milljónum kr. Þannig er í pottinn búið, að sannast að segja er ástandið þannig hjá okkur núna, að menn segja, að bogi hinna óbeinu skatta mun vera spenntur undir það, að hann bresti. Það er búið að auka álagningu á brennivin og tóbak. Við verðum að hækka vörumagnstollinn um 200% og verðtollana um 65% Yfirleitt. Það er búið að taka ábyrgð á kjöti af því fé, sem slátrað verður, og það er búið að taka ábyrgð á þeim fiski, sem aflað verður. Ég verð því að segja: guð hjálpi þessari stjórn, ef hún verður langlíf, og guð má hjálpa næstu stjórn til þess að standa við það, sem búið er að taka ábyrgð á. Og þetta er afleiðingin af stjórn sósíalista og afleiðingin af því, þegar Sósfl. og Alþfl. gengu í hjónasæng með íhaldinu á árunum 1944–1946.