09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Viðvíkjandi því, er hæstv. dómsmrh. sagði varðandi fyrirspurnina um hershöfðingjann yfir Keflavíkurflugvellinum, þá vil ég geta þess, að tekið var fram, að hann væri í þjónustu American Overseas Airlines og væri „civilklæddur“. Og það er sagt, að þótt hann sé í þjónustu þessa félags, þá sé hann í beinu sambandi við stjórn hermálaráðuneytisins í Washington. Þetta er tekið fram í blöðunum. Og þótt hann sé ekki búsettur hér, getur hann haft yfirstjórn þessa flugvallar. Hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að ekki sé ástæða til að „dementera“, að ekki sé ástæða til að lýsa yfir af hálfu ríkisstj., að það, sem blaðamennirnir hafa eftir hæstv. forsrh., sé ósatt. Mér finnst þetta mjög varhugavert af hálfu hæstv. forsrh. Mér finnst ekki rétt að mótmæla aðeins í Alþýðublaðinu, þegar stærstu fulltrúar sænsku pressunnar hafa eftir forsrh. landsins mjög villandi ummæli varðandi afstöðu Íslands til alþjóðamála.

Varðandi það, sem hæstv. dómsmrh. sagði viðvíkjandi Sigurði Guðmundssyni dósent, er vitnað væri til í sænsku blöðunum, þá vil ég aðeins víkja að því. Það er verið að tala um amerísk áhrif á æskuna, og er þar talað um Sigurð Þórarinsson dósent í því sambandi, ef ég man rétt.

Varðandi það, sem hv. þm. G-K. sagði, þá held ég, að því miður verði ekki hjá því komizt að taka upp ýtarlegar umr. um samning þann, er gerður var í haust. Mér virðist það óumflýjanlegt, þar sem t. d. ekki er enn búið að gefa út reglugerð, sem nú átti að vera búið að gefa út, um framkvæmd þessa samnings. En eins og allir vita, er slíkrar reglugerðar mikil þörf, þar sem samningurinn er mjög óljós í ýmsum atriðum. Í haust var sagt, að þetta mundi allt verða gert í reglugerð, og gengið alveg út frá, að sú reglugerð kæmi út áður en herinn færi burt af landinu, en ég veit ekki til, að sú reglugerð hafi verið gefin út enn þá. Og úr því að hv. þm. G-K. minntist á þetta, held ég, að andstaðan sé komin á það stig, að full ástæða sé til, að þessi reglugerð komi út. Ég mun bíða og sjá, hvort hún kemur, en annars mun gefast tækifæri til að ræða þetta nánar.