09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors:

Ég vildi ekki hafa sagt neitt um það, hvort hæstv. forsrh. hefur látið hafa eftir sér það, sem nú er haft eftir honum á erlendum vettvangi. Það, sem ég vildi segja, er það, að ég tel, að blaðaflugufregnir sænsku blaðanna geti ekki orðið til ásteytingar hér á Íslandi, þar sem menn þekkja betur til. Það kemur þessu ekkert við, hvort hv. 2. þm. Reykv. vill ræða flugvallarsamninginn. Það er honum í sjálfsvald sett. En frá mínu sjónarmiði séð er ástæðulaust að koma hér með tvo til reiðar vegna vitlausra ummæla sænskra blaða út af máli, sem við hér þekkjum miklu betur til en þessir blaðamenn.