09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Í framhaldi af umr. þeim, sem urðu hér áðan, og vegna þess, að ég hafði þá ekki blöð við hendina, vildi ég segja nokkur orð. Hv. 2. þm. Reykv. véfengdi, að ég hefði farið rétt með það, sem ég sagði áðan, er ég skýrði frá, að í úrklippu, sem ég hef nú í höndunum, væri vitnað í dósent Sigurð Guðmundsson, sem er til frásagnar um nokkurn hluta af því, sem þar er sagt. En það er einkennilegt, að í úrklippu úr Þjóðviljanum, sem ég hef hér, er þessu breytt í Sigurður Þórarinsson, breyting, sem sýnir það, að þeir Þjóðviljamenn taka að sér þýðingar á nöfnum.

Þá vil ég í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, skýra frá því, að í New York Times 20. febrúar 1947 er sagt, að samkvæmt skeyti frá London 24. febrúar hafi Einar Olgeirsson hælt sér af því á þingi þann dag, að íslenzkir kommúnistar æstu alla þjóðina til baráttu gegn heimsveldismönnum úr Bandaríkjunum, sem leituðust við að nota Ísland sem herstöðvar í næsta ófriði, og að þessi Sameiningarflokkur, sósíalistar, hefði unnið að því að hindra samninga, sem hefðu haft í sér fólgna afhendingu herstöðva til Bandaríkjanna fyrir 99 ár. Herra Olgeirsson hafi sagt, að hinn sameinaði Sósfl. hafi 1400 meðlimi og réði yfir verkalýðsfélögunum og að hann hafi hafið baráttu til þess að koma á fullkomnu sjálfstæði Íslands í sambandi þess við Danmörku.

Það er þess vegna vitnað í ræðu, sem herra Olgeirsson hélt fyrir mörg hundruð mönnum á þingi brezka kommúnistaflokksins. Hann hefur ekkert sagt um þetta, eða ekki hefur borizt nein tilkynning um það, að honum hafi þótt ástæða til að „dementera“ það, sem hann sagði fyrir fjölda manns, á sama hátt og hann heimtar, að hæstv. forsrh. „dementeri“ það, sem hann hefur sagt fyrir 3–4 mönnum.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram til sönnunar því, að ég hafi farið rétt með.