10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. 3. landsk. (HV) hélt því fram, að það hefði komið fyrir hjá fráfarandi stjórn, að mál væru lögð fyrir, eins og hér var gert í dag. Það kom aldrei fyrir, að mál, sem ætlazt var til, að afgr. væru á sama degi, væru lögð fyrir, án þess að þm. fengju að athuga þau (HV: En inntakan í sameinuðu þjóðirnar, og sama átti að gera með flugvallarsamninginn. Það átti að keyra hann í gegn.) Flugvallarsamninginn get ég ekki varið, þar sem ég vissi ekki um hann.

Þá sagðist hann vera á móti því, að sósíalistískir flokkar hefðu samstarf við íhaldið. Ég veit ekki, hvort hann meinti, að sósíalistískir flokkar ættu ekki að hafa samstarf við borgaralega flokka. Ég er ekki á sama máli og hv. þm. um þetta atriði. Ég álit, að samstarf við borgaralega flokka fari eftir því, hvað samið er um og hvað framkvæmt er.

Þá hélt hv. þm. því fram, að ef Sósfl. hefði verið í stjórn, þá hefði hann verið samþykkur frv. svipuðum þessum og bara hrópað „nýsköpun“. Ég get upplýst hv. þm. um það, að margsinnis í tíð fyrrverandi stjórnar var um það rætt að afla tekna á svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir, en Sósfl. var á móti því, og það hefði aldrei komið til mála, að hann hefði verið með neinum slíkum till. Þær till., sem minnzt var á í ríkisstj. í þessa átt, voru að vísu ekki nema smámál hjá þessu, en ráðh. Sósfl. komu í veg fyrir, að þær væru lagðar fyrir Alþ. Það er önnur samsteypa, sem ber ábyrgð á þessu.

Enn fremur vil ég benda hv. þm. á það, að á meðan fyrrv. stjórn sat við völd, fór fram nýsköpun í landinu og allur almenningur hafði atvinnu og miklar framkvæmdir áttu sér stað, en nú er komin stöðvun, og ef svona heldur áfram, er ekki annað sýnna, en að um mikið atvinnuleysi verði að ræða. Mun ég koma nánar að því síðar.

Hv. 7. landsk. (GÍG) hélt því fram, að aðeins væru til 3 leiðir til þess að mæta þeim tekjuhalla, sem nú er á fjárl.: 1. að draga úr útgjöldunum, skera niður fjárveitingar til ýmissa framkvæmda, til menningarmála eða hvers þess, sem fært er að skera niður; 2. að hækka skatta, tekju og eignarskatt. 3. sú leið, sem lögð er til í þessum frv. frá stjórninni. Aðrar leiðir sá hv. þm. ekki, og hann taldi síðustu leiðina langsamlega bezta.

Hv. þm. sagði, að skattana, tekju- og eignarskatt væri ekki hægt að hækka, vegna þess að mönnum væri svo íþyngt, að ekki væri á það bætandi. En hvað heldur hann um verkamanninn, sem hefur kr. 2.65 í grunnkaup um tímann og býst ekki við að hafa vinnu nema nokkurn tíma úr árinu? Hvernig heldur hann, að verkamanninum gangi að framfleyta fjölskyldu sinni, ef kaup hans á enn að lækka? Hér er um að ræða stórfellda fölsun á vísitölunni, og þetta er lagt á þá, sem verst hafa efnin. Það er vegna þessa, sem alþýðusamtökin hljóta að gera gagnráðstafanir. Hv. þm. sér ekki neina aðra leið, en að láta þetta fyrst og fremst koma niður á þeim, sem fátækastir eru, þeim, sem minnst efnin hafa. Ef þetta eru árásir á alþýðuna, sagði hann, eru það þá ekki árásir, sem fráfarandi stjórn stofnaði til með framkvæmdum sínum og nýmælum í félagsmálum og menningarmálum, sem kosta mikið fé? Hann spurði, hvort þetta væri ekki árás á alþýðuna. Þetta er skemmtileg röksemd. M.ö.o., það er ekki hægt að stofna til nýrra framkvæmda, ekki hægt að gera neinar umbætur í félagsmálum og menningarmálum, nema með nefskatti, sem komi niður á þeim fátækustu.

Hv. þm. Eyf. (BSt) hafði sama sjónarmið. Hann sagði: Það þýðir ekkert að tala um, að það eigi að taka af þeim ríku. M.ö.o., það er engin önnur leið til, sem þm. geta komið auga á, en að taka af þeim fátæku. Á öllum sínum stjórnmálaferli hafa þeir hv. þm. Eyf. (BSt) og hv. 7. landsk. (GÍG) ekki komið auga á neina leið til þess að taka af þeim, sem efni hafa.

Mér heyrðist á hv. 7. landsk., að honum þætti vænt um, ef hægt væri að finna slíka leið. Hann spurði mig. hvaða leið við sósíalistar hefðum. Ég vil benda honum á að lesa þær till., sem við höfum komið með. Það má nefna allsherjar ráðstafanir. til þess að hagnýta verzlunargróðann í þágu almennings, þennan stórkostlegasta gróða, sem safnazt hefur í landinu í stríðinu og eftir stríðið. Koma þá fyrst til greina ríkiseinkasölur á vörum, sem skila óeðlilega miklum gróða, svo sem sósíalistar hafa oft bent á. Sömuleiðis eignakönnun, sem eitthvert hald væri að, og eru vist allir sammála um, að ef slík eignakönnun væri framkvæmd, þá mundu tugir milljóna koma fram. Enn fremur getur komið til greina að hækka tolla á lúxusvörum, og eru sósíalistar vel til viðræðna um það. Raunar þyrfti að endurskoða alla tollskrána um leið og hækka þar toll á sumum vörum, því að það er beinlínis hagkvæmt fyrir ríkissjóð. Þegar utanþingsstjórnin var við völd, var skipuð nefnd til að athuga möguleika á að lækka dýrtíðina. Sérfræðingar þessarar n. litu svo á, að lækka mætti vísitöluna um 13–15 stig með því að lækka tolla á sumum vörum. Þeir töldu, að sú lækkun mundi ekki kosta nema 8 milljónir og væri því beinlínis gróði fyrir ríkissjóð, borið saman við niðurgreiðsluaðferðina. En hér er ekki um að ræða framlög til framfara- og menningarmála, heldur er fjáröflunin í þeim tilgangi að greiða niður vísitöluna, sem enn hækkar og kostar ríkissjóð enn meira í niðurgreiðslum, ef þetta frv. nær fram að ganga. Spurningin er, hvort þetta sé rétta leiðin í dýrtíðarmálunum. Þetta er stefna núverandi ríkisstj. að falsa þannig vísitöluna, og við þetta næst ekkert nema að lækka kaup allra launþega í landinu. Ég vil nú spyrja hv. þm. (7. landsk.) hvort það sé í samræmi við stefnuskrá Alþfl. Mig minnir, að það standi í stefnuskrá eða starfsskrá. sem samþykkt var á þingi Alþfl. í haust, að Alþfl. muni berjast gegn öllu því, sem rýrir kjör almennings í landinu. Það er ekki gott að vita, hvað svona samþykktir eiga að þýða, eða ætlast hv. þm. til þess, að mark sé tekið á þeim? Það er alltaf til eitthvert fólk, sem að óreyndu trúir fallegum yfirlýsingum, en þeim mun sárari verða vonbrigðin, þegar fólkið sér, hvaða fleipur yfirlýsingarnar eru.

Í málefnasamningi núverandi ríkisstj. segir, að eitt höfuðmarkmið stjórnarinnar sé að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð í landinu og finna leiðir til lækkunar. Eina leiðin, sem ríkisstj. hefur fundið, er niðurgreiðslur, og til þess að mæta kostnaðinum viðniðurgreiðslurnar er svo lagt fram frv., sem gerir ráð fyrir svo háum nefsköttum, að ekki eru dæmi annars eins í þingsögunni. Hefur um þetta verið leitað samþykkis verkalýðsins í landinu, eins og lofað er í málefnasamningnum? Áreiðanlega ekki, og það veit hv. þm. Stefnuskrá Alþfl. og yfirlýsingar hans verða því skoðaðar sem fleipur eitt, og sömuleiðis verður ekki mikið mark tekið á málefnasamningi núverandi ríkisstj.