05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég hafði strax mín ákveðnu áform í þessu máli, þ. e. að mótmæla þessum röngu ummælum, og þurfti ekki til þess neinar ráðleggingar frá 2. þm. Reykv. Um hitt atriðið, hvaða áhrif blaðaummælin geta haft, er ekki hægt að segja, en hitt er vitað, að það eru ekki missagnir erlendra blaða einar, sem birt hafa þá skoðun, að flugvallarsamningurinn væri brottvikning frá sjálfstæðispólitík Íslands, því að það hefur eitt dagblaðanna gert, eins og kunnugt er. Slík ummæli eru hættulegri fyrir þjóð vora en þessar missagnir sænsku blaðanna, sem nú hafa verið leiðréttar. Þetta ætti 2. þm. Reykv. að athuga og koma í veg fyrir, að endurtaki sig, ef honum er svo annt sem hann lætur.