05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil taka það skýrt fram, að það eru hrein ósannindi, að samningurinn, sem gerður var um afnot Bandaríkjamanna af Keflavíkurvellinum, hafi verið gerður undir nokkurri þvingun eða að það hafi átt að beita nokkurri þvingun í sambandi við hann af hálfu gagnaðilans. Ég fylgdist nokkuð vel með meðferð þess máls, og ég get vottað, að það var laust við, að nokkurri slíkri þvingun væri beitt eða að nokkur hótun væri höfð í frammi eða neitt hið minnsta í þá átt. Hitt skal viðurkennt, að það var dálítið sitt á hvað skilningurinn á því hjá Bandaríkjamönnum og Íslendingum, hvenær ætti að vera lokið brottflutningi hersins. Um það var aðeins dálítill ágreiningur. En það kom ekki fram þannig, að Íslendingar væru í minnsta máta í sambandi við það þvingaðir til að segja já við nokkru í þessum samningi, enda hygg ég, að rök okkar, sem studdum þetta mál, hafi verið á þá leið og skýr frá okkar hálfu, að við töldum, að við værum að gera þennan samning ekki hvað sízt vegna íslenzkra hagsmuna og án nokkurrar þvingunar af hálfu erlends valds.