05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Eftir því sem ég bezt veit, er búið að semja um allar yfirtökur, sem áttu að hafa á þessum tíma átt sér stað eftir Keflavíkurflugvallarsamningnum. Og það er orðið ljóst, hvaða eignum Íslendingar taka við, sem er langsamlega mestur hlutinn af því, sem var á vellinum, allt annað en það, sem hægt var að flytja burt óskemmt.

Um fyrirkomulag á rekstri vallarins er ekki búið að semja til hlítar enn, vegna þess að vantað hefur fullnægjandi till. og grg. um það frá ýmsum viðkomandi stjórnarvöldum til ríkisstj., þannig að hún gæti til hlítar áttað sig á því og sett sínar till. og sín sjónarmið fram. En það er óðum verið að vinna að þessu og fundir haldnir öðru hvoru, og með hverjum deginum er þetta að færast í það horf, sem ætlun okkar stendur til. Það kunna svo að verða einhver ágreiningsefni, sem upp koma, áður en lýkur. Ég skal ekki segja um það. En þau verða leyst samkvæmt samningnum. Við höfum ekki séð nein ágreiningsefni í þessum efnum, sem til vandræða mundu horfa. En það er ekki búið að leysa öll mál, sem þarna koma til greina, en það er verið að vinna að því, og ég vil ekki segja, að það sé ríkisstj. að kenna með þeim starfskröftum, sem hún hefur haft, að ekki er búið að þessu enn. Og ég vil ekki heldur segja, að hægt sé að ásaka Bandaríkjastjórn með því að segja, að hún fullnægi ekki samningi, vegna, þess að það mundi þá fyrst gerast, ef Íslendingar hefðu sett fram ákveðnar kröfur, sem Bandaríkjastjórn hefði ekki gengið að. — Það eru aðeins fáir dagar síðan samningurinn raunverulega tók gildi. Það er og verður svo, að jafnóðum og þau ýmsu atriði koma fram í sambandi við samninginn, sem ágreiningur getur orðið um, þá eru þau tekin upp til umræðu og úrlausnar, og mér er vandséð, með hverjum hætti öðrum væri hægt að leysa þetta mál til þess að koma því í rétt horf.