10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur nú að mestu tekið af mér ómakið. Þó vildi ég fara nokkrum orðum um ræðu hv. 4. landsk. Eins og vænta mátti, var honum næsta ógreitt um svör, þegar hann var krafinn um það, hvernig hann vildi afla tekna til að fá þær 35 milljónir. er ríkissjóður nú þarf, hvað þá ef þurft hefði að afla tekna til að mæta þeirri 20 milljóna hækkun. sem sósíalistar vildu gera á fjárlögunum. Hann svaraði aðeins út í hött og með slagorðum, og er það vel í samræmi við aðstöðu hans og hans flokks til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þótt leitað væri gegnum alla hans ræðu, fannst ekki örla á raunhæfum leiðum til að mæta vandanum, sem nú þarf að leysa Hann minntist þó á ríkisrekstur, einkasölu og eignakönnun. Það verður áreiðanlega lítill hagnaður fyrir ríkið af einkasölum, ef þær verða reknar eins og það ríkisfyrirtæki, sem fyrrv. hæstv. atvmrh. stjórnaði. og á ég þar við landssmiðjuna. Ég býst við, að harla litillar tekjuöflunar sé að vænta af rekstri eins og atvmrh. stýrði s.l. 2 ár því ríkisfyrirtæki, er undir hann heyrði. Hv. 1. þm. Eyf. benti á, að tekjur af allsherjar ríkiseinkasölu yrðu fyrst og fremst teknar af almenningi. Annars þarf það mál meiri og ýtarlegri undirbúnings en hægt er að koma við nú, er fjárþörf ríkissjóðs er svo aðkallandi. Ég og minn flokkur er að sjálfsögðu fylgjandi ríkisrekstri á vissum sviðum og einkasölum, en því aðeins, að þær miði að því að sjá landsmönnum fyrir nauðsynjum sínum með hagstæðum kjörum. Þá minntist hv. þm. á eignakönnun. Eignakönnun er nú í undirbúningi hjá ríkisstj., og mun ríkissjóði ekki veita af þeim tekjum, sem með henni fást. Þá drap hann einnig á skarpara eftirlit með skattaframtölum. Þegar ríkisstj. var mynduð 1944, þá var það eitt af áformum stjórnarinnar að skerpa þetta eftirlit. Þessi hv. þm. var ráðh. í þessari ríkisstj. í 2 ár og hafði aðstöðu til að vinna að því að skerpa eftirlitið. Ég efast ekki um, að þáverandi stjórn hafi gert það, sem hún gat í þessu efni, en allir sjá árangurinn. því held ég, að lítið frv. um enn aukið eftirlit með skattaframtölunum mundi gefa ríkissjóði litlar tekjur. En það er svo með hv. 4. landsk., að þegar gengið er eftir því, hvaða leiðir hann vilji fara aðrar en nú eru lagðar til, þá ýmist skýtur hann sér undan eða svarar út í hött, eða ymprar á gagnslausum leiðum. Enn á ný skora ég á hv. 4. landsk., ef hann á annað borð hugsar sér nokkrar tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð, að hann skýri áform sín fyrir hv. þd.

Hv. 3. landsk. minntist á það í sinni ræðu, að sósíalistar mundu hafa stutt þessi frv., ef þeir sjálfir hefðu verið í ríkisstj. Þessu mótmælti hv. 4. landsk. En ég tek undir þessi ummæli hv. 3. landsk. og tel ekkert vafamál, að sósíalistar hefðu verið með þessum leiðum, ef þeir hefðu ekki verið í stjórnarandstöðu. Það voru ekki þessi atriði, sem ullu því, að sósíalistar fengust ekki til að taka þátt í stjórnarmyndun í vetur, og það voru ekki þessi mál, er á strandaði, þegar stjórnarsamvinnan rofnaði á síðasta hausti (BrB: Var farið fram á þetta í samningaumleitunum um stjórnarmyndun í vetur?) Það kom greinilega í ljós í tilraununum til stjórnarmyndunar, að sósíalistar settu allt annað fyrir sig, og þessi atriði urðu ekki til þess að sósíalistar vildu ekki taka þátt í stjórnarmyndun. (BrB: Ég lýsi hv. þm. hreinan ósannindamann.) Það þýðir ekki neitt fyrir hv. þm. að mótmæla þessu. Ég fylgdist vel með aðdragandanum að stjórnarmyndun, og mér er fyllilega kunnugt um, að sósíalistar settu þessi mál alls ekki fyrir sig. Þeir eru nú mótfallnir þessum frv., af því að þeir vilja ekki, að stjórninni takist að leysa vandann, og er það vel í samræmi við afstöðu þeirra, er þeir gera miklar kröfur um hækkun á fjárlögunum. en vilja svo engar tekjuöflunarleiðir sjá, ekki einu sinni þær, er þeir sjálfir hefðu stutt, ef þeir hefðu verið í ríkisstjórn.