23.05.1947
Neðri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er nú orðið kunnugt, að hér eru staddir nokkrir Bretar, sem vinna að athugun á Þjórsá, en meira vita menn ekki. Sumir hafa getið sér þess til, að hér sé að verki brezkur alúmíníumhringur, sem hafi í hyggju að athuga möguleikana á virkjun Þjórsár í því augnamiði að hefja hér alúmíníumvinnslu. Nú eru ákvæði um það í l. nr. 68 frá 1940 að rannsóknarráð ríkisins skuli hafa forgöngu eða vera til ráða kvatt við allar náttúrufræðilegar rannsóknir. Ég hef því snúið mér til formanns rannsóknarráðs ríkisins og spurt, hvort hann væri hér með í ráðum, en hann kveðst ekki hafa neitt verið til kvaddur í þessu máli og sama segir raforkumálastjóri. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., og þá sérstaklega hæstv. atvmrh., sem ég geri ráð fyrir, að þessi mál heyri undir, hverju þetta sæti, hvort þessar rannsóknir hafi verið leyfðar og hvort það hafi verið gert í samráði við rannsóknarráð, ef þetta reynist vera gert samkvæmt leyfi, og enn fremur, að hverju þessar rannsóknir beinist.