04.12.1946
Efri deild: 28. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Mig furðar ekki, þótt hv. þm. Barð. spyrji um þetta, þar sem liðinn er þetta langur tími síðan málinu var vísað til n. Ég hef ekki sem form. n. boðað til fundar og málið þannig ekki tekið fyrir í n. En þessi dráttur af minni hálfu að taka málið til meðferðar þar stafar eingöngu af því, að mér var kunnugt um það, að vegamálastjórnin hafði á prjónunum till. til Alþ., hver sé hennar vilji um heildarafstöðu til slíkra mála, sem fyrir þingið kunna að koma núna, svo sem um frv. um nýja þjóðvegi. Þar sem ég hafði ástæðu til að ætla, að vegamálastjórn landsins mundi bera fram þessar till. og þær gætu orðið þeirri n., sem um slík mál fjallaði, til leiðbeiningar, hef ég dregið að kalla saman fund til þess að sjá, hvort þessar till. kæmu ekki fram. Ég vil svo vona, að hv. fyrirspyrjandi skilji, að enn sem komið er stafar þetta af þessum orsökum, en ekki af öðru.