22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Það eru tvö mál, sem ég hef áhuga fyrir og ekki eru komin frá n. Annað þeirra flutti ég skömmu eftir jól í vetur, um breyt. á vatnsveitul. fyrir Reykjavík, og varð að samkomulagi hér á deildarfundi að láta þessi l. bíða, þar til sæist um afdrif frv. um opinbera aðstoð við vatnsveitur. Nú er það frv. að vísu komið til einnar umr. í Nd., en mér skilst, að ekki sé öruggt um framgang þess máls. Frv. varðandi Reykjavík er hins vegar þess eðlis, að það getur naumast staðið í mönnum að samþykkja það hér, og hefur bæjarstjórn og bæjarráð Reykjavíkur eindregið mælt með framgangi málsins. Nú er ekki þörf á þessu, ef hitt málið nær fram að ganga, en þar sem ekki er víst, að svo verði, en komið að þinglokum, vil ég biðja þá n., sem hefur það til meðferðar, að afgreiða það frá sér til 2. umr. í kvöld, þannig að það gæti gengið til Nd. og hún afgr. málið, ef hitt málið nær ekki fram að ganga, í samræmi við það, sem lofað var af hálfu þessarar n. í vetur, og ég hefði ekki sætt mig við stöðvun málsins, ef það loforð hefði ekki verið gefið. Nú blasir sá möguleiki við, að hitt málið kunni að stöðvast, og vil ég þá, að nm. standi við loforð sín að afgreiða málið. Annars vildi ég beina til forseta, að hann taki málið til afgreiðslu í d. nefndarlaust.

Hitt málið, sem ég vildi minnast á, er frv. um breyt. á l. um embættisbústaði héraðsdómara. Það var komið til n. fyrir mjög skömmu, og mér er ljóst, að ef n. krefst þess, á hún rétt á að athuga það lengur. En málið hefur gengið fram ágreiningslaust í Nd., og væri ég þakklátur, ef menn treysta sér til að gefa d. kost á að taka afstöðu til þess, en játa þó, að n. hefur haft svo skamman tíma, að ekki er hægt að ásaka hana fyrir vanrækslu.