23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Mig langar til að frétta af till., sem 24. okt. s. l. var vísað til n., sem hv. þm. Barð. er form. fyrir, og hefur legið þar síðan. Þetta er till. á þskj. 29, um greiðslu ríkissjóðs til verðjöfnunarsjóðs. Vil ég vænta þess, að n. sé búin að hafa nógan tíma til að athuga till.

Í byrjun febr. var vísað til n. öðru máli, sem fyrir liggur, að allir þm. nema fimm eru með. Þetta var till. um það að gefa eftir toll af sænskum húsum, og var hún samþ. með öllum atkv., nema fimm sátu hjá. Þessari till. var visað til fjvn. 5. eða 6. febr., og hún liggur hjá n. enn.

Tveim öðrum till. var vísað til n., annarri í nóv., en hinni í okt., um endurgreiðslu á tolli vegna innflutnings á bátum. Mig langar til að frétta af þessum till. hjá hv. form. fjvn. Ég ætla ekki að gera þá kröfu til hæstv. forseta, að hann taki þessar till. á dagskrá, en vil vænta þess, að n. þingsins breyti þeim vinnubrögðum að sitja á málum allt þingið.