08.04.1947
Sameinað þing: 42. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

Minning Árna Jónssonar frá Múla

forseti (JPálm) :

Ég hef boðað til þessa fundar í dag að loknu páskahléi til þess að minnast nokkrum orðum nýlátins fyrrverandi þingmanns, Árna Jónssonar frá Múla. Hann andaðist hér í bænum aðfaranótt 2. þ. m., rúmlega hálfsextugur að aldri.

Árni Jónsson fæddist á Reykjum í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu 24. ágúst 1891, sonur hins nafnkunna merkismanns Jóns bónda þar og alþingismanns, síðar í Múla, Jónssonar bónda á Helluvaði í Mývatnssveit Hinrikssonar, en móðir Árna og kona Jóns í Múla var Valgerður Jónsdóttir bónda og þjóðfundarmanns á Lundarbrekku í Bárðardal Jónssonar prests í Reykjahlíð Þorsteinssonar.

Árni lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1908, stúdentsprófi í Reykjavík 1911 og ári síðar prófi í forspjallsvísindum við háskólann hér. Þá hvarf hann frá frekara námi og vann í verzlunarskrifstofu í Englandi næstu 3 árin, 1912–1915. Næsta ár, 1916, stundaði hann verzlunarstörf á Seyðisfirði, en ári síðar, 1917, varð hann verzlunarstjóri á Vopnafirði og gegndi því starfi um 7 ára skeið, til 1924. Í rúm 3 næstu árin, 1925–1928, var hann forstjóri Brunabótafélags Íslands. Þegar hann lét af því starfi, tók hann mjög að leggja stund á blaðamennsku, var ritstjóri Varðar 1928–1929, stjórnmálaritari Ísafoldar 1930 og ritstjóri Austfirðings á Seyðisfirði 1930–1932. Eftir þann tíma hafði hann um skeið á hendi skrifstofustörf í Reykjavík hjá Sambandi íslenzkra fiskframleiðenda og gaf sig jafnframt að blaðamennsku, allt til 1944, ritaði stjórnmálagreinar í Vísi til 1942, gerðist þá ritstjóri Þjóðólfs og síðan Íslands. Frá því er hann hætti blaðamennsku, fékkst hann við ritstörf hér í bænum, einkum þýðingar bóka. — Á Alþ. átti hann sæti alls um 9 ára skeið, var fyrst 2. þm. N-M. 1924–1927 (kosinn 1923), og 10 árum síðar, 1937, tók hann hér sæti að nýju sem landsk. þm. (varaþm.), þegar Magnús Guðmundsson féll frá, og sat á þingi til 1942. Fyrra tímabilið, 1924–1927, átti hann sæti í neðri deild, en hið síðara, 1937–1942, í efri deild. — Af öðrum störfum, sem hann var kosinn til þess að gegna í almenningsþarfir, má nefna, að hann sat í útvarpsráði 1939–1943 og var yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna 1925, 1926 og 1927.

Árni Jónsson var gjörvilegur maður, stórbrotinn í lund, þó að hann væri hversdagslega gæfur og glaðlyndur, miklum gáfum gæddur, eins og hann átti kyn til, söngmaður ágætur, hagorður og listfengur. Honum var frábærlega létt um að rita og var bæði hugkvæmur og orðsnjall. Blaðagreinar hans margar voru hnittnari og hæfnari en almennt gerist hjá íslenzkum blaðamönnum. — Hin síðari ár naut hann sín ekki svo sem atgervi hans hæfði sakir heilsubrests. Þessi vel gefni og mikilhæfi maður er nú hniginn í valinn fyrir aldur fram.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu Árna Jónssonar virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]