18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

Olíustöðin í Hvalfirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér heyrðist á hæstv. utanrrh., að hann væri að víkja að einhverju, sem okkur hefði milli farið út af einhverju, sem hefði gerst í Hvalfirðinum, og hann fann ástæðu til að taka það fram, að Bandaríkjamenn óskuðu ekki eftir, að þessi mannvirki stæðu, þannig að það væri úr lausu lofti gripið, að Bandaríkin hefðu óskað eftir flotastöð í Hvalfirðinum, og þeir menn, sem héldu því fram, þyrftu að standa alstrípaðir frammi fyrir þjóðinni. Ég verð að segja það, að ég er undrandi á þessum ummælum ráðh. Mér finnst engin ástæða fyrir hann að taka fram neitt um það, hvað Bandaríkjastjórn kann að hafa talið nauðsynlegt. Hitt er annað, hvað við kunnum að halda. Við vitum, að Bandaríkjastjórn hefur lagt svo mikla áherzlu á flugstöð, flotastöð, sem hún gæti notað, þegar henni þóknaðist, og í þriðja lagi stöð í Skerjafirðinum, að hún hefur farið fram á að fá slíkar stöðvar leigðar sér til 99 ára, og þegar þjóðin veit, að farið hefur verið fram á slíkt með þeim afleiðingum, sem það kann að hafa, kemur það úr hörðustu átt, þegar hæstv. ráðh. fer að lýsa því yfir, að Bandaríkjastjórn óski ekki eftir að hafa mannvirki í Hvalfirðinum. Bandaríkjastjórn hefur haft svo mikinn áhuga fyrir þessu, að hún hefur viljað fá þrjú landsvæði á Íslandi leigð og undan íslenzkri yfirstjórn. Ég vil segja það, að mér þykir það í hæsta máta undarlegt, þegar því er haldið fram, að Íslendingar þurfi ekki að vera á verði gegn slíku, og ég álít, að þann 1. október 1945 hafi Bandaríkjastjórn sýnt sig svo aðgangsfreka gagnvart sjálfstæði Íslendinga, að það sé ekki nema eðlilegt, að við verðum á verði, hverju sem slík stjórn kann að lofa. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess, að ráðh. hefur farið hér hörðum orðum um það, orðum, sem ég álít, að alls ekki eigi hér heima. Það mætti vera blind þjóð, sem eftir till. um 99 ár hefði ekki í huga, að sú stjórn, sem fer fram á slíkt, gæti haft áhuga fyrir að tryggja sér það síðar meir. Ég veit ekki, hvaða ástæða er til að vera að hvítþvo Bandaríkjastjórn gagnvart okkur og ætla að reyna að telja þjóðinni trú um, að hættan sé um garð gengin. Mér finnst hættan vera meiri en áður, enda er það vitað, að Bandaríkjastjórn fékkst ekki til að flytja her sinn héðan af Íslandi, nema hún fengi samning til 61 árs um flugstöð á Keflavíkurflugvelli, sem gæti verið til taks fyrir Bandaríkjastjórn, hvenær sem Bandaríkjaher væri skipað að gera árás. Ég á þess vegna bágt með að skilja það, að hæstv. utanrrh., sem á, fyrir hönd þjóðarinnar að „spesialísera“ í því að athuga þær hættur, sem kynnu að vera búnar frelsi hennar, að hann skuli vilja vísa með svo ákveðnum orðum á bug allri hugsanlegri tortryggni, sem fram kæmi hjá þjóðinni eða einstökum mönnum gagnvart Bandaríkjastjórn. Án þess að ég vilji ræða meira um þetta, vil ég ganga út frá þeirri staðreynd, að Bandaríkjastjórn hafi áhuga og að það sé eðlilegt, að Íslendingar séu tortryggnir. Eftir að Íslendingar höfðu neitað Bandaríkjastjórn um þessar herstöðvar til 99 ára, hefur það gerzt, að Bandaríkjastjórn hefur tryggt sér réttindi á Keflavíkurflugvellinum, sem okkur greinir ekki á um. Það, sem hér liggur fyrir í Hvalfirðinum, — það, sem veldur þeirri tortryggni, sem kom fram hjá Sósfl., eru tilmæli Bandaríkjastjórnar frá 1. október 1945 og sú hætta, sem í því felst, ef Hvalfjörðurinn yrði gerður að flotastöð. Út frá þeirri viðleitni, sem kom fram frá Bandaríkjastjórn, hefði verið eðlilegt að líta svo á, að hún hefði áhuga, og út frá Keflavíkurflugvellinum og þeim aðferðum, sem þar voru notaðar, er ekki óeðlilegt að líta svo á, að svipað gæti skeð með Hvalfjörðinn. Þess vegna þætti mér vænt um að heyra, hvað þessir olíugeymar taka mikið af olíu. Það er vitað, að þeir eru miklir og stórir. Ég hef að vísu heyrt, að þeir muni sumir ekki endast nema nokkur ár, en aðrir lengur. Það væri praktískt að kryfja þetta til mergjar og fá upplýsingar um það, hve mikið magn af olíu kemst í þessa tanka. Það má vera, að það séu ekki höfð nema fáein tonn í sumum af þessum tönkum, en ekki hafa nú verið svo margar tegundir af olíu, sem hafa verið fluttar inn, þó þessi nýja tegund af „fueloil“ bætist við. Það væri líka gott að fá upplýsingar um, hvað væri hið raunverulega verðmæti þessara eigna. Ég veit ekki um það. Mig minnir, að blöðin hafi verið að tala um, að þessar eignir væru 40 milljón kr. virði eða að tilboð hafi verið um þá upphæð. Ég þori samt ekki að fara með þetta, en held að það hafi staðið í Morgunblaðinu, að eignirnar væru þess virði, og vitað er það, að þetta eru náttúrlega gífurlega miklar eignir og þeim er mjög vel fyrir komið. Hins vegar var þetta selt á 1–2 milljónir, þegar stjórnin keypti það. Hvernig stendur á þessum breytingum á verðmætum? Það, sem Morgunblaðið segir, að sé 40 milljóna virði, er keypt á 2 milljónir og svo selt aftur á 2 milljónir.

Það mun vera rétt, að í þessu félagi, sem keypti, séu aðalhluthafar sambandið og eitthvað af kaupfélögum. Þó munu vera í því nokkrir einstaklingar. Hæstv. ráðh. segir, að það sé aðeins vegna hlutafélagal., af því að það séu einstaklingar, sem eiga að mynda hlutafélög. En hinu hafa menn veitt eftirtekt, að samhliða þessu olíufélagi starfar annað hlutafélag, sem heitir Hið íslenzka steinolíuhlutafélag og mun hafa haft umboð fyrir Standard Oil hér á landi. Ég hef þess vegna fengið þá hugmynd, að þessi tvö félög, Olíufélagið h/f og Hið íslenzka steinolíuhlutafélag, væru í rauninni tvö félög, sem að mjög miklu leyti væru sömu eigendur eða ráðamenn að, — og eins og menn vita, getur oft verið hentugt að geta beitt tveim mismunandi félögum fyrir sig. En það, sem við þyrftum að vita, væri, hvaða samband er á milli Olíufélagsins h/f og Standard Oil, og þá sérstaklega, hvaðan Olíufélagið h/f hefði hugsað sér að kaupa olíu, bæði togaraolíu og aðra olíu, vegna þess að hæstv. ráðh. segir, að engin tengsl séu milli Olíufélagsins h/f og erlendra félaga, og skilst mér, að það, sem hefur verið gert fyrir félagið, hafi verið gert vegna þess, að það hefur engin sérstök tengsl við erlend olíufélög. Þó sýnist mér, að gegnum Hið íslenzka steinolíuhlutafélag séu bein tengsl milli þessa félags og Standard Oil, og ef Standard Oil lætur alla olíu til þessa félags, þótt það sé gegnum Hið íslenzka steinolíuhlutafélag, þá er ekkert undarlegt, þó að menn langi til að vita eitthvað nánar um það. Það er vitað, að Standard Oil hafði mjög mikið að gera með olíubirgðir og olíusölu til Bandaríkjastjórnar á stríðsárunum, og svo mikið er víst, að amerísk olíufélög hafa mikilla hagsmuna að gæta fyrir botni Miðjarðarhafs og að það hefur áhrif á pólitík Bandaríkjastjórnar. Ef nú Standard Oil hefur hagsmuni gagnvart Olíufélaginu og annast um leið útvegun á olíu fyrir Bandaríkjaflotann, þá er ekkert undarlegt, þótt manni detti í hug stórpólitík í sambandi við þetta. Það væri gott að fá þetta upplýst, og þegar það lægi fyrir, væri ekkert að því að taka þetta til rólegrar umr. hér á nýjan leik.

Ég býst við því, að við viljum sem flestir vera á verði gegn því, að með hjálp auðhringa verði sett hér upp flotastöð fyrir ameríska flotann. Nú upplýsir hæstv. ráðh., að í bréfi, sem skrifað var út af þessum eignum, hafi verið ummæli um það, að stjórnin mætti innan þriggja ára fyrirskipa að rífa þessa geyma, ef þeir væru ekki notaðir. Nú skilst mér, að það sé alveg vandalaust fyrir olíufélagið, ef það vill það við hafa, að hafa alltaf not af þessum tönkum. Það er alltaf hægt að segja, að hér þurfi að vera 30 þús. tonn af olíu. Það er alltaf hægt að geyma nógu mikið af olíu, ef félaginu finnst það borga sig, og þá yrði erfitt að skipa að rífa niður tankana. Hér liggur fyrir frv. um einkasölu á olíu, og hafa verið sett sérstök l. um að taka olíutanka eignarnámi. Og það var engin ástæða til þess að selja þessa tanka án þess að láta Alþingi vita af því áður. Því held ég, að það væri gott fyrir hv. þm. að fá upplýsingar um verðmæti þessara hluta, geymslupláss tankanna og samband Standard Oil við íslenzka olíufélagið.