18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

Olíustöðin í Hvalfirði

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Það var auðheyrt, að hann vildi fara ofurlítið hægar en blað hans Þjóðviljinn, enda mun hann hafa fundið, að grundvöllurinn undir ásökunum blaðsins er ekki svo sterkur. Ég vil leyfa mér að benda á, að það, sem hér er að gerast, er það, að sósíalistar ásaka ríkisstj. fyrir að láta dulbúa herstöð í Hvalfirði og halda því fram, að Olíufélagið h/f sé leppfélag fyrir amerískar „interessur“. En hverjir standa að þessu olíufélagi? Það eru S. Í. S. og nokkur sambandskaupfélög, ásamt félögum útgerðarmanna. Það eru þessir aðilar einir, og nú er það borið á þessi félög, að þau hafi léð sig til leppstarfsemi fyrir hagsmuni erlends ríkis. Þykir mönnum nú ekki trúlegra, ef Bandaríkin væru á annað borð að leita hér eftir leppfélögum, að fyrir valinu hefðu orðið einhverjir aðrir aðilar? Mér er kunnugt um, eins og hæstv. utanrrh. tók fram, að milli Olíufélagsins h/f og Standard Oil eru engin tengsl nema þau, að Olíufélagið kaupir af Standard Oil, en félagið hugsar sér að kaupa í framtíðinni frá Alþjóðasambandi samvinnumanna, en þau samtök eru enn ekki orðin nægilega sterk. Þetta er mér alveg sérstaklega kunnugt. Mér skilst, að afstaða sósíalista sé, að vegna þess að Bandaríkjaflotinn geti tekið stöðvarnar í Hvalfirði í sína þjónustu, þá eigi að rífa geymana. Þá mætti allt eins segja, að ef Bandaríkjamenn kæmu, þá gætu þeir tekið stöðvar, sem annars staðar eru. Ef Bandaríkin gerðu hér innrás, heldur þá hv. 2. þm. Reykv., að þau gætu ekki notað aðrar stöðvar en þær, sem eru í Hvalfirði? Að halda slíku fram er of heimskulegt fyrir jafngreindan mann.

Það er kunnugt, að þær olíustöðvar, sem nú eru til, eru allt of litlar. Og á þá að rífa niður þessar stöðvar í Hvalfirði og neyða menn til að byggja stöðvar annars staðar eða á að banna mönnum að hafa olíustöðvar í Hvalfirði? Ef menn eru svo hræddir við alla tækni, að hún verði misnotuð af erlendu ríki, þá held ég, að ekkert dugi til að fyrirbyggja þennan ótta annað en að færa allt aftur á bak til frumstæðara ástands og eyða allri tækni okkar. Ef ríkisstj. hefði tekið þá afstöðu að láta rífa stöðina í Hvalfirði, þá þurfti Olíufélagið að reisa nýja. En þess var það ekki megnugt að svo stöddu, og hefði þá starfsemi þess fallið niður á næsta sumri. Félagið ætlaði að reisa nýja stöð, en það var svo miklum erfiðleikum bundið, að ógerlegt reyndist í bráð, og þá var fyrst farið að athuga olíustöðina í Hvalfirði. En þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun, því að félagið hefur í hyggju að reisa nýja stöð, eins og ég hef áður tekið fram. Hæstv. utanrrh. hefur nú upplýst, að félagið muni láta rífa þá tanka, sem ekki er þörf fyrir.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvað geymarnir tækju mikið, og mun hæstv. utanrrh. svara því. Það þarf auðvitað tanka fyrir margar tegundir, og svo getur staðið á, að heildargeymsluplássið sé óþarflega mikið.

Það getur verið ýmislegt, sem kommúnistar reyna að nota til árása og æsinga, þó að það skipti ekki máli í augum venjulegra manna. Ég býst við, að þeir, sem standa að olíufélaginu, kunni að meta aðdróttanir sósíalista og svara þeim á viðeigandi hátt, og hæstv. utanrrh. hefur svarað fyrir hönd ríkisstj., svo að ég þarf ekki að orðlengja þetta mikið. Ég vil aðeins benda á, að sósíalistar reyna af veikum mætti að kynda að hatursbáli gegn Bandaríkjunum og reyna að gera ríkisstj. tortryggilega og láta þar stjórnast af fjandskap gegn þeim félögum, sem eru aðilar að olíufélaginu. Hins vegar mætti búast við því, að þeir, sem fegurst tala um nauðsyn útgerðarmanna til að styrkja samtök sín og taka olíuverzlunina í sínar hendur og hafa talið sig hlynnta samvinnumönnum, þá mætti búast við því, að þeir hefðu fagnað því, að svona félag fengi olíustöðina. En þeir, sem þekkja sósíalista og vinnubrögð þeirra í garð samvinnufélaganna, eru ekki undrandi yfir þessum úlfaþyt, ekki sízt, þegar um leið er reynt að blása að hatri gegn Bandríkjunum og gera núverandi ríkisstj. tortryggilega í augum þjóðarinnar.