18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

Olíustöðin í Hvalfirði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. talaði mjög í öðrum anda en flokksblað hans í morgun. Hann talaði um, að sala olíustöðvarinnar í Hvalfirði væri tortryggileg vegna þess, að Bandaríkin hefðu einu sinni óskað þar eftir herstöðvum. Í Þjóðviljanum var allt annað upp á teningnum en tortryggni eða spurningar. Þar eru fullyrðingar og frásagnir af atburðum, sem aldrei hafa skeð í þeirri mynd, sem blaðið segir. Ég vil nú leyfa mér að lesa hér upp ummæli Þjóðviljans, með leyfi hæstv. forseta, þar segir svo: „Þá var gripið til þess ráðs að senda herra Huge S. Comming, háttsettan embættismann í utanríkisráðuneytinu, til Íslands á nýjan leik, en eins og kunnugt er, samdi hann Keflavíkursamninginn ásamt Ólafi Thors og leiddi það herstöðvamál til lykta eins og Bandaríkjastjórn óskaði. Herra Cumming kom til Íslands 18. marz s. l. og krafðist þess, að Hvalfjarðarmálið yrði leyst á „viðunandi“ hátt, áður en hin formlega „brottför“ Bandaríkjahers ætti að fara fram, 5. apríl. Eins og í fyrra skiptið gekk för herra Cummings að óskum. Ríkisstj. „leysti“ Hvalfjarðarmálið 4. apríl — föstudaginn langa — samkvæmt óskum bandarísku stjórnarinnar. Með þessari sölu hefur ríkisstj. hinna þrjátíu og tveggja leitt óvéfengjanlega í ljós, að hún lítur á sig sem bandaríska leppstjórn. Fyrst „kaupir“ hún eignir Bandaríkjahers í Hvalfirði fyrir 2 milljónir króna í blekkingarskyni, — en afhendir þær síðan umboðsfélagi Standard Oil fyrir 1,3 milljónir. Hún kemur þannig fram sem umboðssali á herstöðvunum í Hvalfirði í því skyni einu að tryggja, að þær standi óhaggaðar og til taks handa bandaríska hernum. Þessi svik eru í beinu samræmi við aðrar aðgerðir ríkisstj., m. a. í markaðsmálum, sem miða að því að gera Ísland algerlega háð auðvaldi Bandaríkjanna. Ríkisstj. hefur með sölunni á Hvalfirði gengið í berhögg við vilja íslenzku þjóðarinnar og er nú fyrirlitin af öllum nema amerískasta hluta yfirstéttarinnar.“ Þarna er ekki um að ræða varfærni eða eðlilegar fyrirspurnir, heldur er þetta ákveðin frásögn, sem haldið er fram, að styðjist við staðreyndir, og inn í þetta er svo dregið viðkvæmt markaðsmál. Við eigum nú í samningum við Rússland, og þegar því er lýst yfir í Þjóðviljanum, að hér sé ríkisstj. vísvitandi að setja upp herstöð gegn Rússlandi, þá spillir það beinlínis þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru um viðskiptasamband við Rússa. Og ég lít þannig á, að þegar slík frásögn kemur fram, alveg úr lausu lofti gripin, þá sé ástæða til, að hv. Alþ. sem og allur almenningur fái vitneskju um hið rétta samhengi málsins. Hv. 2. þm. Reykv. taldi ástæðu til að ræða hér ummæli, sem ranglega voru höfð eftir hæstv. forsrh. En hversu líklegri er ekki þessi grein til þess að hafa skaðsamleg áhrif fyrir Ísland en hinn rangi fréttaburður, sem hv. 2. þm. Reykv. fann ástæðu til að gera að umtalsefni? Þessar fullyrðingar eru hættulegar fyrir afstöðu Íslands út á við auk þess, sem þær eru, eins og nú standa sakir, beinlínis lagaðar til að spilla fyrir viðskiptasamningum okkar. Það er því fullkomin ástæða til að ræða þetta og láta hið sanna koma í ljós. Það var ekkert athugavert, ef hv. 2. þm. Reykv. hefði í utanrmn. eða hér á Alþingi reynt að grennslast eftir hinu rétta samhengi málsins. Ef tregða hefði þá orðið á upplýsingum, þá var ástæða til getsaka. En hitt, að koma með svona geipilegar fullyrðingar án þess að kynna sér málið, það eru fáheyrð vinnubrögð og vafalaust í illu skyni gerð.

Hæstv. menntmrh. hefur svarað fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. og gert grein fyrir sambandi Olíufélagsins við Standard Oil. Ég hef hér hluthafaskrána, og má hv. þm. Reykv. líta á hana. Það eru í þessu félagi samvinnufélög, olíusamlög útgerðarmanna og nokkrir einstaklingar. (ÁkJ: Megum við heyra nöfnin?) Það er sjálfsagt. Skráin er svo hljóðandi:

Samband ísl. Samvinnufélaga

kr.

240000,00

Kaupfélag Eyfirðinga

195000,00

Kaupfélag Ísfirðinga

50000,00

Olíusamlag Keflavíkur

90000,00

Samvinnufél. útgerðarm. á Norðf.

45000,00

Olíusamlag Vestmannaeyja

90000,00

Togarafélagið Helgafell h/f

95000,00

Ástþór Matthíasson Vestme.

5000,00

Elías Þorsteinsson

5000,00

Karvel Ögmundsson

5000,00

Kjartan Guðmundsson Ve.

5000,00

Skúli Thorarensen Rv.

5000,00

Halldór Jónsson

5000,00

Jakob Frímannsson

5000,00

Egill Thorarensen

5000,00

Vilhjálmur Þór

5000,00

Kristján Kristjánsson

15000,00

Bifreiðastöð Akureyrar h/f

10000,00

B. S. A. Verkstæði

5000,00

Helgi Benediktsson Ve.

5000,04

Þessi skýrsla sannar glögglega, að það er rétt, að úrslitayfirráðin eru hjá S. Í. S. og K. E. A. og nokkrum olíusamlögum útgerðarmanna, og án þess að ég sé sérstakur vinur eða talsmaður S. Í. S., þá finnst mér heldur óeðlilegt að leita til svo víðtækra samtaka um leppmennsku fyrir Bandaríkin, samtaka, sem Kron stendur að með hv. 6. þm. Reykv. í broddi fylkingar.

Varðandi stærð geymanna virðist mér, að þeir muni taka 70–80 þús. tonn. 8 þeirra eru logsoðnir og 34 skrúfaðir. Ég hef hér sundurliðun um það, hvernig geymarnir skuli notaðir, og ég hef enn fremur bent á, að það er aðeins einn annar aðili en Olíufélagið, sem óskað hefur eftir geymsluplássi í Hvalfirði, en það er Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, sem hefur viljað áskilja sér 30 þús. tonn af geymslurúminu. Það kemur fram í skýrslu Olíufélagsins, að það telur þessa áætlun nokkuð freklega, en þetta voru óskir botnvörpuskipaeigenda. Það er ekki á mínu færi eða manna yfirleitt að gera sér fulla grein fyrir, hve þörfin verður mikil, og því er gert ráð fyrir, að endurskoðun fari fram eftir þrjú ár. Það má minna á, að þegar Shell byggði geymana í Skerjafirði, ætluðu ýmsir að ærast yfir þeirri hættu, sem sjálfstæði landsins væri þar með sett í. Þessir menn töldu, að geymarnir nægðu fyrir allan brezka sjóherinn, og eigendur þeirra áttu að vera leppar Breta. Reynslan sýndi, að geymarnir voru allt of litlir, og stöðin er nú úrelt fyrir íslenzkar þarfir.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að með vinsamlegu samstarfi íslenzkra og amerískra félaga væri hægt að láta líta svo út, að þörfin væri meiri en hún væri í raun og veru. Um þetta segir í bréfi ráðuneytisins, dags. 31. marz 1947, með leyfi hæstv. forseta : „Um þann hluta stöðvarinnar, sem ráðgert er að selja Olíufélaginu h/f, skal þó tekið fram, að geymarnir eru seldir til eðlilegs rekstrar félagsins og til niðurrifs að öðru leyti, og hefur ríkisstj. heimild til þess að þrem árum liðnum að krefjast þess, að stöðinni verði komið í það horf, sem samsvarar þeim rekstri, er reynslan hefur sýnt að þörf er á. Þennan fyrirvara verður að gera á fullnægjandi hátt, þegar salan fer fram.“ Þarna er beinlínis talað um eðlilegan rekstur félagsins á stöðinni, og það er á valdi ríkisstj. að segja til um, hvað sé eðlilegur rekstur, og ef ósamkomulag yrði, þá mundi það koma til endanlegs úrskurðar dómstólanna, og er því tortryggni í þessum efnum ástæðulaus, einkum þegar Olíufélagið er þannig byggt upp, að þar getur ekki verið um leppmennsku að ræða.

Þá talaði 2. þm. Reykv. um það, hvert verðmæti væri í geymunum. Fyrst mun hafa verið talað um, að þeir væru 1 milljón dollara virði, síðar var rætt um 6 milljónir, en loks voru þeir seldir fyrir 2 milljónir. Hvort það er óeðlilegt verð eða ekki, má deila um, en þó ber þess að gæta, að þessir geymar eru ekki heppilegir, nema hægt sé að nota þá þar á staðnum. Margir aðilar hafa athugað þessa tanka og allir verið sammála um það, að þeir séu lítils virði til niðurrifs. Hitt, að Bandaríkin hafi gert einhverjar kröfur í sambandi við þessi kaup, er fjarstæða, og þessi sala miðast við fullkomlega eðlilegar ástæður, en verðmunurinn stafar af því, að verðmætin reyndust allt önnur en fyrst var ætlað. Ég bjóst við fyrirspurn um þetta, enda er síður en svo, að ég hafi nokkuð við það að athuga, en vegna þeirrar tortryggni, sem gætt hefur í þessu máli, hef ég gætt þess vandlega, að ekki væri hægt að finna á því réttmætan höggstað. Það verður því að finna að því, sem Þjóðviljinn gerir, þar sem hann ekki einungis notar þetta sem árás á ríkisstj., heldur líka til þess að spilla fyrir eðlilegum viðskiptum þjóðarinnar.