18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

Olíustöðin í Hvalfirði

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. talaði um það í lok ræðu sinnar, að við Íslendingar ættum að standa saman út á við, þó að við rifumst innbyrðis um innanríkismál. Þetta er rétt. Þetta væri ágæt regla, ef hægt væri að hafa hana. En hæstv. núverandi menntmrh. var einn af þátttakendum í því að draga lokur frá hjá okkar íslenzku þjóð og opna dyr fyrir erlendri ásælni á síðasta hausti. Hann var þar einn af þeim 32, sem þá opnuðu landið fyrir erlendri ásælni.

Það er nú hlaupið hér upp til handa og fóta af hæstv. ríkisstj. og talað um, að það sé verið að skaða hagsmuni Íslands með fleipri. Svo skaðleg sem orð eru í þessum efnum, þá eru þó athafnirnar hættulegastar. Það þýðir ekkert fyrir þessa menn, hæstv. ríkisstj., að ætla að bera það á borð fyrir Íslendinga í því skyni að geta losnað þannig við opinberar umr. um athafnir þeirra í opinberum málum, að það sé hættulegt þjóðinni, að henni sé sagður sannleikurinn. Þeir hafa sagt: Keflavíkursamningurinn gefur ekki rétt, sem jafnast á við herstöðvar. En þetta er ekki nema fyrirsláttur. Hvaða blað frá Ameríku sem maður grípur niður í og um þetta ræðir, telur þetta herstöðvar. Getur það verið, að þeir, sem í þau blöð skrifa, geti gert íslenzku þjóðinni óskunda með þeim skrifum?

Varðandi Hvalfjörð stakk það mig sérstaklega, þegar hæstv. dómsmrh. talaði um, að þrír aðilar hefðu haft áhuga fyrir kaupum á eignum í Hvalfirði, nefnilega Olíufélagið h/f, Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda og hvalveiðahlutafélagið Hvalur, að hæstv. ráðh. gleymdi fjórða aðilanum, sem áhuga hafði á að fá þessar eignir keyptar, og það var Bandaríkjastjórn, sem var sá fyrsti umsækjandi. Hæstv. utanrh. minntist ekkert á það. En sökum þess að Bandaríkjastjórn hefur farið fram á það — það er opinberlega vitað um allan heim, að hún hefur farið fram á það —, þá þarf íslenzka ríkisstj. að taka á þessu með sérstakri varkárni. Sem sagt, málið byrjar þannig, að Bandaríkjastjórn fer fram á það að fá Hvalfjörðinn sem flotastöð fyrir sig, og það þýðir ekkert fyrir hæstv. menntmrh. að tala um það, að Bandaríkjastjórn geti tekið olíustöðvar hvar sem er á landinu. Það vita allir, að Hvalfjörðurinn er nefndur öðrum stöðum fremur hér á landi í þessu sambandi, af því að hann er skipalægi, og það er ekki nema útúrsnúningur, sem hæstv. menntmrh. ber fyrir sig í þessu efni. Frá hendi Bandaríkjastjórnar var stöðugt ríkjandi mikill áhugi fyrir því að fá flotastöð í Hvalfirði, og það er ekki vafi á því, að Bandaríkjastjórn var ekki af baki dottin með það að reyna að komast að sama marki, þó að það væri eftir annarri leið. Þess vegna var um að gera að vera sérstaklega á verði. — Nú skeður það, að Olíufélagið h/f, sem er umboðsmaður fyrir Standard Oil, þó að það sé alveg með íslenzkum hluthöfum, það sækist eftir að fá þessa stöð. En það var tekið fram af hæstv. menntmrh., að þetta olíufélag hefði ekki ætlað sér upphaflega endilega að vera umboðsmaður eða umboðsfélag fyrir Standard Oil til þess að fá þessa stöð í Hvalfirði. Það væri fróðlegt að fá upplýst, hvort það var jafnsnemma, sem það ætlaði að vera umboðsfélag fyrir Standard Oil og það einnig fékk áhuga fyrir Hvalfirði. En hvað sem því líður, þá er það staðreynd, að þetta félag sækist mjög eftir að fá þessa olíustöð, og það er látið hafa þessa stöð fyrir skömmu. Skömmu eftir að einn af æðstu embættismönnum Bandaríkjastjórnar er búinn að dveljast hér á landi, þá er þetta félag látið fá þessa stöð með þeim einkennilega hætti, að í næstu þrjú ár eigi íslenzka ríkisstj. ekki að staðreyna, hvort þessir tankar í Hvalfirðinum séu í samræmi við olíubirgðir þessa félags, sem kaupir þá. Ég sé ekki annað en það sé eðlilegt, að þm. séu tortryggnir á svona hluti. Allt þetta tal um hlutafélagið og það sé trygging fyrir, að þar séu ekki leppar fyrir aðila í Ameríku, er mesta fásinna, eftir að sannað er, að í svo að segja hverju hlutafélagi er það einn eða örfáir menn, sem ráða öllu í félaginu, en alls ekki hluthafarnir. Það eru þeir, sem hafa aðstöðu til að hafa yfirráð yfir hlutabréfunum, sem ráða þar. Þarna eru ekki nema tíu menn, sem eru persónulegir hluthafar. Ég veit, að í sumum félögum er það svo, að enginn fær að kjósa í stjórn nema hann sé persónulegur hluthafi. Það er álíka félagsskapur og hæstv. forsrh. kannaðist við og keypti Iðnó á sínum tíma, áður en Alþfl. tapaði, af því að Dagsbrún, þótt það sé hluthafi, getur ekki stillt upp til stjórnarkosningar, af því að enginn þar er persónulegur hluthafi. Er þannig ástatt með þetta hlutafélag, að stjórnin sé einungis kosin af persónulegum hluthöfum? Ef það er, þá er hrein fjarstæða að nefna hluthafa eins og S. Í. S. og útvegsmannafélögin. Þá hafa þau ekkert þar að segja, geta engin áhrif haft á stjórnarkosninguna.

Við skulum segja, að það sé of mikil illgirni að ætla hverjum af þessum mönnum, sem ráða í félaginu, að þeir séu amerískir leppar, en mönnum er ekki láandi, þó að þeir hafi misjafnar skoðanir um þessa menn eins og aðra, en við skulum sleppa því í bili. Aðalatriðið er, að hæstv. ríkisstj. bar skylda til að halda svo á málunum, að það væri ekki undir neinum persónum komið, hvort einhverjum vissum persónum tækist að vera leppar fyrir Ameríku eða ekki. Ef hæstv. stjórn hefði talið nauðsynlegt að nota tankana, án þess að af því gæti hlotizt, að önnur þjóð blandaðist inn í hagsmuni Íslands, þá átti hún að hafa þarna fullan ráðstöfunar- og eftirlitsrétt. En nú er þetta selt, og vitanlega er fjárhæðin svo lág, að hún skiptir engu máli. Hún tekur fram við þann, sem kaupir, að hún muni staðreyna að þremur árum liðnum, hvort félagið þurfi til rekstrar síns eins mikla tanka og þarna eru. Þetta er ámælisvert, og hæstv. stjórn getur ekki komizt hjá að sæta áminningu fyrir. Þetta hefur skaðað hagsmuni Íslendinga miklu meira en jafnvel þau orð, sem hæstv. forsrh. hefur gloprað út úr sér í góðu skapi við nokkra blaðamenn.

Ég vil að lokum beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvort hann sjái sér ekki fært að birta öll skjöl varðandi þessi mál, þar á meðal samninginn við Olíufélagið um þetta frá orði til orðs, það bréf, sem hann las kafla úr, og enn fremur ýmis atriði, sem skipta máli og sýna, hvernig þetta olíufélag er saman sett, því að um leið og búið er að selja félaginu svona hluti, þá á almenningur á Íslandi og jafnvel víðar mikið undir, hvernig stöðinni er stjórnað og hvernig hún er notuð, en það er með svona möguleikum, að kannske einn maður getur með árangri verið leppur fyrir Bandaríkin til að leppa herstöð í Hvalfirði.