16.05.1947
Sameinað þing: 52. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

Mjólkureftirlit

menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hef séð það í blöðunum, að í fyrradag hefur það verið tekið fram hér á Alþ., að ég hafi vikið frá embætti Sigurði Péturssyni gerlafræðingi. Hér hlýtur að vera um einhvern meiri háttar misgáning að ræða, sem mér er áhugamál, að verði leiðréttur. Vil ég því leyfa mér að gefa þinginu skýrslu um það, sem gerzt hefur í þessum mjólkurmálum, og sérstaklega þá, hvernig málavextir eru.

Sigurður Pétursson er skipaður starfsmaður atvinnudeildar háskólans og heldur því starfi áfram. Það er byggt á fullkomnum misskilningi, að honum hafi verið vikið úr því. Hann mun vinna þar framvegis sömu störf og áður, en það mun m. a. vera verkefni hans þar að rannsaka þau mjólkursýnishorn, sem þangað eru send. Jafnhliða aðalstarfi sínu í atvinnudeildinni hefur Sigurður annazt upptöku mjólkursýnishorna hér í bænum sem aukastarf. Þegar ég tók við starfi heilbrmrh., hafði verið gefin út ný heilbrigðisreglugerð, þar sem ákveðið var, að héraðslæknar önnuðust þetta verkefni. Enn fremur var ákveðið í reglugerðinni, að ráðh. skipaði eftirlitsmann, er væri heilbrigðisyfirvöldunum til aðstoðar á þessu sviði, bæði hér í Reykjavík og úti á landi. Mér bárust tilmæli frá ýmsum aðilum, m. a. Húsmæðrafélagi Reykjavíkur, að láta þetta ekki verða aukastarf, þar sem hér væri um svo mikið verkefni að ræða, og féllst ég á þá skoðun. Í samræmi við það réð ég Þórhall Halldórsson mjólkurfræðing til að taka þetta starf að sér, en honum barzt tilboð um annað starf, sem hann kaus heldur. Réð ég þá Edvard Friðriksson mjólkurfræðing til að gegna þessu starfi.

Aukastarf Sigurðar Péturssonar féll raunverulega niður með setningu nýju reglugerðarinnar, þar sem héraðslæknum var falin upptaka sýnishorna af mjólk. Hins vegar mun Sigurður halda áfram aðalstarfi sínu, sem er m. a. efnagreining mjólkursýnishornanna. Með hinni nýju skipan er ráðgert að auka og fullkomna mjólkureftirlitið, þar sem yfirumsjón samkv. hinni nýju reglugerð er falin manni, sem rækir það sem aðalstarf.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins upplýsa þetta, til þess að menn standi ekki í þeirri meiningu, að hér hafi eitthvað sérstakt gerzt, eins og það væri, ef embættismanni hefði verið vikið frá starfi fyrirvaralaust.