24.05.1947
Neðri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

Starfslok deilda

forseti (GÞ) :

Síðan síðasta fundi var slitið, hef ég fengið allörugga vissu fyrir því, að til d. muni ekki koma fleiri mál, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að halda hv. dm. hér tilbúnum til fundarstarfa, en vil hins vegar taka fram, að ef breyting kynni að verða gerð á máli í Ed., sem ætti að afgreiða sem lög, gæti orðið að setja fund á ný í fyrramálið. Ég tek því 3. málið út af dagskrá.

Þetta er þá síðasti fundur í þessari deild. Ég er hér í sporum 1. forseta d., en hann er, eins og kunnugt er, fulltrúi Alþingis á þinghátíðinni í Helsingfors. Ég vil fyrir hans hönd og einnig fyrir mína þakka þm. fyrir góða samvinnu, lipurð og þolinmæði. Hvítasunnuhelgin fer nú í hönd, og ég óska öllum þm. gleðilegrar hátíðar og að þeir muni allir koma heilir heim til ástvina sinna og annarra vina. Og ég vil vona, að þm. muni á hausti komanda, þegar þingið kemur saman á ný, allir hittast endurnærðir á sál og líkama af geislum sumarsólarinnar.