11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. um gjald af innlendum tollvörutegundum er einn liður í því að afla ríkissjóði þeirra nauðsynlegu tekna, sem hann þarf til að mæta útgjöldum fjárl. Er farið fram á, að ríkisstj. fái heimild til að innheimta til ársloka 1947 með 100% álagi gjald samkvæmt lögum nr. 60 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum, að viðbættu 50% álagi samkvæmt l. nr. 94 1946, um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld með viðauka. Hækkun þessi tekur þó ekki til gjalds af kaffibæti samkvæmt l. lið 3. kafla greindra l.

Í aths., sem fylgja þessu frv., eru teknar fram þær ástæður, sem fyrir því liggja, að frv. er fram komið, svo og væntanlegur tekjuauki af frv., ef það nær samþykki Alþingis. Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál. Það er í sjálfu sér einfalt, og læt ég því máli mínu lokið að sinni með þeirri ósk, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.