11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Einar Olgeirsson:

Það er viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir. Mér sýnist þetta frv. vera dæmi um, hversu skynsamlega reynt er að haga sér á þeim sviðum, þar sem ríkið gæti haft stóran ágóða af að framleiða slíkar vörur. Við skulum taka þessar sælgætisgerðir, sem eru stórgróðafyrirtæki. Hins vegar er þessu þannig háttað — ég man ekki, hvað þær eru margar í bænum — en framleiðslan getur verið það vélræn í þessum fyrirtækjum, að það er hægt með því að láta svo að segja eina verksmiðju annast þetta að framleiða allt sælgæti í bænum fyrir hluta af þeim kostnaði, sem er á að framleiða þetta nú. Ef ríkið sjálft hefði nú eina slíka verksmiðju og byggði aðra til, þá mundi koma í ríkisins hlut, ef sælgætið væri selt með því verði, sem hér er ætlazt til, miklu meira en nú kemur til ríkisins með þeim tollum, sem nú eru af því greiddir, ásamt þeim sköttum, sem nú eru á þessum fyrirtækjum, því að það vita allir, að þessi fyrirtæki eru breyzk eins og fleiri að reyna að koma sér undan að greiða skatta eins og þeim ber. Það er erfitt að „kontrollera“ slíkt, og eina aðferðin, sem ríkið getur haft, er áð taka svona framleiðslu sjálft að sér. Það er engin skynsamleg ástæða, sem mælir með að hafa það öðruvísi, þetta eru upplagðar tekjuvörur fyrir ríkissjóð. Því í ósköpunum á ríkið ekki að reka þetta? Því á ríkið ekki t.d. að reka myndarlega brjóstsykurverksmiðju? Í þessum verksmiðjum eru nú t.d. karamelluvélar, sem vinna kannske ekki nema lítinn part af almennum vinnutíma. Svona vélar eru til í hinum mismunandi verksmiðjum úti um allt í Reykjavík og framleiða þetta margfalt dýrara, en þörf er á. Það er laglegt að láta þetta viðgangast! Hvað eftir annað hefur verið stungið upp á í umr., sem fram hafa farið um tekjuöflun fyrir ríkissjóð, af hálfu Sósfl., að ríkið tæki að sér að reka svona verksmiðjur og hafa einkasölu á þessum vörum. Það hafa ekki komið neinar skynsamlegar mótbárur móti þessu, en aldrei hefur verið hægt að fá breyt. á þessu. (Forsrh.: Það hefur aldrei komið fram frv. um það.) Vill hæstv. forsrh. vera með, ef ég kem fram með frv. um það á morgun? (Forsrh.: Það er sjálfsagt að taka það til athugunar.) Þá er bezt að umskapa eitthvað af stjfrv. á morgun og sjá, hvað okkur tekst, þá mundum við fá dálítið skynsamlega breyt. á þessu. Þetta er svo mikil vitleysa, að manni blöskrar það. Meðan farið er svona vitlaust í þetta, þá er óhugsandi að vera með þessu. Þess vegna vil ég, af því að ég hugsa, að stjórnarliðið hafi styrk til að koma þessu til 2. umr., gera brtt. við frv. og sjá, hvort hægt er að koma viti fyrir hv. þm. í þessu máli.