17.05.1947
Sameinað þing: 54. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur haldið fund vegna fjarvistar þeirra fjögurra hv. þm., sem tilkynnt hefur verið, að farið hafa til útlanda í dag. Þegar n. hélt fundinn, voru fjórir nm. viðstaddir, en einn nm., hv. þm. Dal., var fjarstaddur. Fyrir lá að athuga kjörbréf Steindórs Steindórssonar, sem kemur í stað hv. 9. landsk., Barða Guðmundssonar, Auðar Auðuns í stað Jóhanns Hafsteins, 7. þm. Reykv., Snorra Jónssonar í stað Einars Olgeirssonar, 2. þm. Reykv., og dr. Kristins Guðmundssonar í stað Bernharðs Stefánssonar, 1. þm. Eyf. Kjörbréf lágu fyrir n. um þrjá hina fyrst töldu menn, en um kjörbréf dr. Kristins Guðmundssonar er það að segja, að það lá fyrir staðfest vottorð frá formanni kjörstjórnar um niðurstöður kosninga í Eyjafjarðarsýslu. N. mælir með, að kjörbréf hinna þriggja manna verði tekin gild og einnig áður nefnt vottorð, sem má skoðast sem kjörbréf. Þetta er að segja f. h. nefndarinnar, og voru nm. sammála um þessa niðurstöðu.