11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mig hefði langað til að koma með brtt. við þetta frv., um, að farið yrði inn á þá braut, að ríkið tæki að einhverju leyti að sér þann rekstur, sem kæmi til greina í þessu sambandi, en sá, að mér mundi ekki vinnast tími til að undirbúa slíkar till. Þetta frv. gengur í sömu átt og hin önnur frv. hæstv. ríkisstj., sem hér liggja fyrir, um hækkun gjalda án tillits til þess, hvort um er að ræða almenna nauðsynjavöru eða ekki, og koma því þessar hækkanir jafnt niður á ríkum sem snauðum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið sér tíma til að gera upp þarna á milli. og þar sem ég sé, að mér vinnst ekki tími til að tína sundur þær innlendu tollvörutegundir, sem ég gæti fallizt á hækkun á, og hinar, sem ég væri á móti hækkun á, en slík athugun á tollskrárl. er mikið verk og tekur sinn tíma, þá hef ég ekki komið fram með brtt. við frv. Ég hef því tekið þann kostinn að vera á móti frv. í heild. Viðvíkjandi róttækum aðgerðum í þessum efnum, sem sé að ríkið tæki að sér rekstur í þessu sambandi, mundi slíkt ekki samrýmast því formi, sem hér er á haft, og þær till. mundu ekki komast hér að. Ég verð því að láta mér nægja að vera andvigur því, að frv. nái fram að ganga.